Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra segir að við áframhaldandi sölu á Íslandsbanka þurfi hann, ríkisstjórnin og eftir atvikum Alþingi „að gera það upp við sig hvers virði það er að leggja aukna áherslu á gagnsæi og jafnræði og hvort það sé svo mikils virði að hægt sé að sætta sig við eitthvað lægra verð þegar fram í sækir“.
Ráðherra vék að því að lengri undirbúningstími sölu með almennu útboði á markaði gæti haft ófyrirséð áhrif á verð bréfa og leitt til þess að ríkið fengið minna en ella fyrir eftirstandandi hlut sinn í bankanum.
Hann sagðist telja útilokað að sú ríkisstjórn sem nú situr muni notast við tilboðsfyrirkomulag eins og notað var við seinna útboðið í Íslandsbanka fyrr á þessu ári, vegna galla sem því fylgi, „ekki síst í svona smáu samfélagi eins og við búum í“.
Jafnræðið „veikur blettur“ á útboðinu
Í því samhengi vísaði Bjarni, sem sat fyrir svörum á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun, til þess að ekki hefði tekist að tryggja fullt jafnræði. Kallaði hann það „veikan blett“ á útboðinu og að tryggja hefði mátt betur að allir söluráðgjafar væru að beita sömu aðferðafræði til að hlaupa áhugasömum kaupendum að ferlinu.
Þannig hafi umræða verið á þann veg að sumir hafi verið hvattir til að taka þátt, á meðan aðrir hafi þurft að sýna frumkvæði. „Þetta truflar mann aðeins þetta með jafnræðið,“ sagði Bjarni, sem þó sagði tilboðsfyrirkomulagið hafa marga augljósa kosti. Með því hefði tekist að selja stóran hlut í bankanum á verði sem hann telji mjög ásættanlegt.
Bjarni var spurður um það hvort stefnt væri að frekari sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka á næsta ári og svaraði því til að hann vildi ekki svara til um það, þó að hans vilji stæði til þess að svo yrði. Einnig sagði hann það alrangt að forsendur fjárlaga ársins 2023 væru í uppnámi ef sala á eignarhlutnum færi ekki fram þá. Eign ríkisins í Íslandsbanka myndi ekki hverfa, þrátt fyrir að salan færi ekki fram á næsta ári og skuldastaða ríkisins væri mun betri en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir.
Spurður um það hvaða eining myndi taka við hlutverki Bankasýslu ríkisins, sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja niður, sagði Bjarni að hann sæi fyrir sér að eignarhlutir ríkisins í fjármálafyrirtækjum myndu renna inn í stofnun sem héldi á öðrum eignarhlutum ríkisins, en ræddi þessar hugmyndir þó ekki í smáatriðum.
Tekur ekki undir gagnrýni Bankasýslu á Ríkisendurskoðun
Bjarni var einnig spurður hvernig hann horfði á þau ummæli sem forsvarsmenn Bankasýslunnar hefðu haft um Ríkisendurskoðun frá því að skýrslan kom út, sem Þórunn Sveinbjarnardóttir formaður nefndarinnar sagði að hefðu slegið sig illa.
Bjarni sagði að þarna vísaði þingmaðurinn væntanlega til ummæla sem lýstu einhverjum efa um að Ríkisendurskoðun hefði verið fullbær til að tjá sig um öll þau atriði sem voru til umfjöllunar í skýrslunni.
„Við getum ekki tekið undir þetta,“ sagði Bjarni og sagði ráðuneytið hafa verið í mjög fagmannlegum samskiptum við Ríkisendurskoðun og að það teldi enga ástæðu til að draga í efa hæfni eða færni Ríkisendurskoðunar til að tjá sig um efni málsins.