Ný viðbygging við Alþingishúsið mun væntanlega rísa þar sem bílastæði Alþingis er í dag, fyrir aftan Oddfellow húsið við Vonarstræti. Viðbyggingin er eftir hönnun Guðjóns Samúelssonar. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum í morgun hefur ríkisstjórnin samþykkt drög að þingsályktunartillögu um það hvernig skuli minnast aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands. Málið hefur vakið mikla athygli.
Ríkisstjórnin vill ljúka við að reisa viðbyggingu við Alþingi, „sem hugmyndir voru um að risi fullveldisárið 1918 en ekkert varð af vegna styrjaldar og fjárskorts. Lengi hafa verið uppi áform um að leysa úr húsnæðisskorti Alþingis en skrifstofur þingsins eru nú í leiguhúsnæði í allmörgum byggingum í grennd við Austurvöll.“ Í greinargerð með þingsályktunartillögunni kemur fram að athuganir hafi leitt í ljós að talsverð hagkvæmni sé í því fólgin að koma allri starfsemi þingsins fyrir í samtengdum byggingum.
Guðjón Samúelsson hannaði viðbyggingu við Alþingishúsið og átti að ráðast í bygginguna árið 1918, en ekkert varð af því. Því segir ríkisstjórnin fara vel á því að ljúka við byggingaráformin nú, þegar Íslendingar hafa í heila öld notið þeirra framfara sem fylgdu í kjölfar fullveldis. „Þannig mun eitt fegursta hús Guðjóns Samúelssonar loks rísa, hús í sígildum stíl sem mikil prýði verður að til framtíðar.
Gert er ráð fyrir að haldin verði samkeppni meðal arkitekta um hönnun hússins og tengibygginga að öðru leyti. Þannig fá íslenskir arkitektar samtímans tækifæri til að hanna hús með Guðjóni Samúelssyni. Með því vinna kynslóðir fullveldisstofnunarinnar með kynslóðum samtímans við uppbyggingu til framtíðar. Um leið og horft er til framtíðar er fortíðinni sýnd virðing og draumar fyrri kynslóðar uppfylltir í þágu framtíðarkynslóða.“
Stofnun Árna Magnússonar, ný Valhöll, hátíðarfundur, hátíðarhöld og rit um sambandslögin
Fleiri tillögur eru í drögum að þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar. Til að mynda vilja stjórnvöld að Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum verði þjóðargjöf í tilefni af 100 ára fullveldisafmælis Íslands árið 2018. Þá er í tillögunni gert ráð fyrir því að reist verði ný Valhöll á Þingvöllum og haldinn verði hátíðarfundur á Þingvöllum þann 18. júlí 2018, þegar hundrað ár verða frá því að efnislegt samkomulag um fullveldi náðist við Dani.
Þá mun ríkisstjórnin efna til hátíðarhalda 1. desember sama ár, þegar öld verður liðin frá því að sambandslögin tóku gildi. Að lokum mun forseti Alþingis í samvinnu við forsætisnefnd og formenn þingflokka láta taka saman rit um „aðdraganda sambandslaganna, efni laganna og framkvæmd þeirra, svo og um inntak þess fullveldis er Ísland Öðlaðist að þjóðarétti árið 1918.“
Hér má sjá texta þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar, en vert er að taka fram að um drög er að ræða. Hér má lesa drögin.