Alls verða í kringum 1.900 manns á kjörskrá Viðreisnar í fyrsta prófkjöri flokksins sem fram fer í Reykjavík á morgun og á laugardag. Samkvæmt upplýsingum frá Viðreisn hefur flokksfélögum í Reykjavík einni og sér fjölgað um 600-700 manns í aðdraganda prófkjörsins.
Sjö manns bjóða fram krafta sína í prófkjörin, en í því verður kosið um fjögur efstu sætin á lista flokksins. Tvær vilja fyrsta sætið á lista, þær Þórdís Lóa Þórhallsdóttir núverandi oddviti borgarstjórnarflokksins og Þórdís Jóna Sigurðardóttir. Pawel Bartoszek borgarfulltrúi er einn um að gefa kost á sér í annað sæti á listanum, en fleiri eru um hituna hvað þriðja sætið á lista varðar.
Allir félagsmenn Viðreisnar 16 ára og eldri, sem búsettir eru í Reykjavík og hafa verið félagsmenn í a.m.k. þrjá daga fyrir prófkjör hafa kosningarétt í prófkjörinu, en frestur til þess að skrá sig í flokkinn til þess að öðlast þátttökurétt í prófkjörinu rann út í lok dags 1. mars.
Samkvæmt svari frá Viðreisn fjölgar víðar í flokknum en í Reykjavík þrátt fyrir að þar fari eina prófkjör flokksins fram. Í Mosfellsbæ fer til dæmis fram óbindandi skoðanakönnun á meðal félaga um skipan á lista flokksins í bænum, en þar sækjast þau Lovísa Jónsdóttir og Valdimar Birgisson eftir því að leiða lista flokksins.
„Það er virkilega gaman að sjá þennan mikla áhuga á fyrsta prófkjöri Viðreisnar, flokks sem verður 6 ára nú í maí og undirbýr sig nú fyrir sínar fimmtu kosningar,” segir Jenný Guðrún Jónsdóttir framkvæmdastjóri flokksins í skriflegu svari til Kjarnans.
Undir kjörfylgi í Reykjavík í síðustu könnun
Viðreisn bauð fyrst fram til sveitarstjórna árið 2018 og fékk þá 8,2 prósent atkvæða í Reykjavíkurborg og tvo borgarfulltrúa kjörna. Í kjölfarið myndaði flokkurinn meirihluta ásamt Samfylkingu, Pírötum og Vinstri grænum.
Samkvæmt nýjustu könnuninni um fylgi flokka í Reykjavík, sem Maskína framkvæmdi í lok janúar og byrjun febrúar, mældist Viðreisn ögn undir kjörfylgi sínu og var eini flokkurinn núverandi meirihluta sem það gerði.
Flokkurinn mældist nánar til tekið með 5,9 prósenta fylgi í könnun Maskínu, sem myndi þýða að hann fengi einungis einn borgarfulltrúa kjörinn.