Viðskiptaráð Íslands telur að íslenska þjóðin geti ekki átt fiskveiðiheimildir. Það telur enn fremur að yfirlýsing þess efnis í lögum um stjórn fiskveiðveiða, þar sem stendur í fyrstu málsgrein að „nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar“ hafi ekki beina þýðingu í eignarréttarlegu tilliti. „Aftur á móti getur ríkið eða stofnanir þess notið eignarréttar og færi betur á því að það væri þá orðað beinum hætti, standi vilji til þess.“
Þetta kemur fram í umsögn Viðskiptaráðs um þingsályktunartillögu þingflokks Viðreisnar um að fela matvælaráðherra að breyta áðurnefndum lögum þannig að veiðiheimildum yrði úthlutað tímabundið til 20 ára. Gengi þetta eftir myndi heildaraflahlutdeild í öllum tegundum fyrnast um fimm prósent á ári og sama hlutdeild í kjölfarið seld á uppboðsmarkaði til 20 ára í senn.
Segir aflaheimildir teljast til eignaréttinda
Í tillögunni segir að lagaleg óvissa kvótakerfis með framseljanlegum veiðiheimildum snúi fyrst og fremst að eignarréttarlegri stöðu veiðiheimilda í kjölfar ótímabundinnar úthlutunar þeirra.
Þessu er Jóhannes Stefánsson, lögfræðingur Viðskiptaráðs sem skrifar umsögnina, fullkomlega ósammála. Hann telur óvissuna um eignarréttindi yfir aflaheimildum ekki fyrir hendi og í öllu falli ofmetin. „Aflaheimildir teljast til eignarréttinda og skilyrði fyrir þjóðnýtingu þeirra, með vísan til almannahagsmuna, eru umdeilanleg. Standi vilji til þess að þjóðnýta aflaheimildir færi betur á því að taka það með skýrum hætti fram að þær yrðu eign ríkisins, þar sem hugtakið þjóðareign hefur takmarkaða þýðingu í lagalegu tilliti.“
Á þessum grundvelli leggst Viðskiptaráð gegn þingsályktunartillögunni.
Fengu kvóta afhentan án endurgjalds
Kvótakerfinu var komið á með lögum árið 1983. Við úthlutun kvóta var miðað við aflareynslu síðustu þriggja ára og hann afhentur án endurgjalds. Framsal á kvóta var síðan gefið frjálst sem gerði það að verkum að viðskipti fóru að vera með þessa vöru sem var í upphafi lánuð án greiðslu.
Árið 1997 var svo gefin heimild til að veðsetja aflaheimildir fyrir lánum, sem voru notuð til að kaupa upp kvóta eða eftir atvikum aðrar eignir.
Fyrir vikið hækkuðu aflaheimildirnar hratt í verði og mjög margir urðu mjög ríkir.
Þessi staða leiddi til þess að flest fólk sem byrjaði með tvær hendur tómar hefur ekki lengur tök á að kaupa sér nokkra tugi tonna af kvóta og bát með. Það er ekki á færi annarra en sterkefnaðra. Auk þess er stærðarhagkvæmni í greininni orðin svo ráðandi þáttur að erfitt er að „keppa“ við stærri fyrirtækin þegar kemur að verðum á markaði og stærstu sjávarútvegsfyrirtækin eiga heilu virðiskeðjunnar í heild sinni.
Í stað þess að það verði mikil endurnýjun eða nýliðun í greininni þá selja yfirleitt eldri útgerðarmenn, hvort sem er í smáútgerðum eða stærri, sem eiga litla kvótapakka, til stóru útgerðarfyrirtækjanna sem sjá sér hag í að bæta við kvóta og hagræða enn frekar í rekstri, enda hafa þau yfir að ráða tækjum og tólum til að nýta kvótann betur, með hagkvæmri vinnslu. Og frekari samþjöppun verður.
Tíu stærstu með yfir 67 prósent kvótans
Þegar Fiskistofa tók saman kvótastöðu allra útgerða í haustið 2020 var niðurstaðan sú að engin ein útgerð héldi á meiri kvóta en lög heimila, en samkvæmt því má engin ein tengd blokk hald á meira en tólf prósent af heildarverðmæti úthlutaðra aflaheimilda hverju sinni. Brim, sjávarútvegsfyrirtæki sem er skráð á markað, var efst á listanum yfir þær útgerðir sem héldu á mestu með 10,45 prósent af úthlutuðum kvóta.
Tíu stærstu útgerðirnar héldu samanlagt á 53,1 prósent af kvótanum. Það var svipuð staða og hafði verið árin á undan.
Fiskistofa, sem hefur eftirlit með því að yfirráð einstakra aðila yfir aflahlutdeildum fari ekki umfram lögbundin mörk, birti nýja samantekt á samþjöppun aflahlutdeildar í byrjun nóvember í fyrra. Þar birtist ný staða. Nú var ein útgerð, Brim, komin yfir lögbundið kvótaþak og tíu stærstu útgerðirnar héldu nú á 67,45 prósent á öllum úthlutuðum kvóta. Brim seldi í kjölfarið hluta aflaheimilda sinna til útgerðar í eigu Guðmundar Kristjánssonar, forstjóra Brims.
Fjórar blokkir voru með yfirráð yfir 60 prósent af öllum kvóta sem úthlutað hefur verið á Íslandi. Sú stærsta, sem hverfist um Samherja, heldur nú á næstum fjórðungi alls kvóta eftir Síldarvinnslan, þar sem Samherji er stærsti eigandinn, tilkynnti um kaup á Vísi í sumar.
Meira í arð en opinber gjöld
Hagur sjávarútvegsfyrirtækja landsins, samtala arðgreiðslna og aukins eigin fjár þeirra, vænkaðist um meira en 500 milljarða króna frá bankahruni og til loka árs 2020. Geirinn greiddi sér meira út í arð, alls 21,5 milljarða króna, á árinu 2020 en hann greiddi í öll opinber gjöld, alls 17,4 milljarða króna. Inni í þeirri tölu eru veiðigjöld (4,8 milljarðar króna), tekjuskattur (7,3 milljarðar króna) og áætlað tryggingagjald (5,3 milljarðar króna).
Þetta var í eina skiptið á tímabilinu 2015-2020 sem sjávarútvegurinn hafði greitt minna í opinber gjöld en hann tók út í arðgreiðslur innan árs. Raunar hafði geirinn einungis einu sinni greitt jafn lítið í bein opinber gjöld innan árs á því tímabili og hann gerði í 2020, en það var árið 2017 þegar heildargreiðslur hans í opinber gjöld voru 15,8 milljarðar króna.
Nýjar tölur um arðsemi í sjávarútvegi á árinu 2021 verða opinberaðar í næstu viku.