Viðskiptaráð telur að ef ríki og sveitarfélög myndi selja hlut sinn í Landsbankanum (236 milljarðar króna), Arion banka (18 milljarðar króna), Íslandsbanka (átta milljarðar króna), sparisjóðum (einn milljarður króna), Landsvirkjun (176 milljarðar króna), Orkuveitu Reykjavíkur (101 milljarðar króna), Orkusölunni (28 milljarðar króna), Orkubúi Vestfjarða (þrír milljarðar króna), Landsneti (67 milljarðar króna), HS Veitum (þrettán milljarðar króna), RARIK (þrettán milljarðar króna), Farice (59 milljarðar króna), Isavia (31 milljarður króna), ÁTVR (19 milljarðar króna), Íslandspósti (fimm milljarðar króna) og Sorpu (fjórir milljarðar króna) væri hægt að ná í samtals nálægt 800 milljörðum króna.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Viðskiptaráðs sem birt verður í dag og er greint frá í Fréttablaðinu.
Ætti að vera búið að selja Íslandspóst og Sorpu
Í skýrslunni, sem ber nafnið "Hið opinbera: tími til breytinga" segir að nota mætti ágóðann af sölu opinberu fyrirtækjanna til að grynnka verulega á opinberum skuldum, en ætlaður söluhagnaður samkvæmt mati Viðskiptaráðs samsvarar rúmlega 40 prósentum af landsframleiðslu.
Viðskiptaráð vill að undirbúningur verði hafinn að því að selja hlut í Landsvirkjun.
"Við sjáum fátt því til fyrirstöðu að fara að selja eignarhlut í Landsbankanum og að hefja undirbúning á að minnsta kosti hluta á eignarhlut í Landsvirkjun," segir Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, í samtali við Fréttablaðið. Hann segir einnig að Íslandspóstur og Sorpa séu dæmi um fyrirtæki sem hefði átt að vera búið að einkavæða. "Við teljum engin haldbær rök fyrir því að hið opinbera sinni þessum hlutverkum yfirhöfuð og þar af leiðandi ættu menn bara að fara sem fyrst í það að selja þessar eignir," segir Frosti við Fréttablaðið.
Tölvan segir nei
Árlegt Viðskiptaþing Viðskiptaráðs fer fram í dag. Þingið ber heitir "Tölvan segir nei: hvernig má innleiða breytingar hjá hinu opinbera".
Aðalræðumaður Viðskiptaþings verður Daniel Cable, prófessor í stjórnun við London Business School. Meðal annarra ræðumanna verða Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra,Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, og Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins.
Að loknum erindum fara fram pallborðsumræður með þátttöku leiðtoga þeirra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi.