Fjármálaeftirlitið hefur stöðvað tímabundið viðskipti á skuldabréfamarkaði með skuldabréf útgefin af Íbúðalánasjóði og ríkissjóði. Einnig hafa verið stöðvuð viðskipti með hlutabréf tryggingafélaganna Sjóvá, TM og VÍS, og ákveðna verðbréfasjóði Landsbréfa og Íslandssjóða. Í tilkynningu til Kauphallarinnar er birtur listi yfir þau verðbréf sem viðskipti eru stöðvuð með.
Fram kemur í tilkynningu frá FME að ákvörðunin sé tekin til að vernda jafnræði fjárfesta. Áætlað er að opna aftur fyrir viðskipti klukkan 14:00 í dag, eftir boðaðan blaðamannafund forsætisráðherra og fjármálaráðherra þar sem kynnt verður áætlun um afnám gjaldeyrishafta. Aðgerðir stjórnvalda til losunar fjármagsnhafta verða kynntar í Hörpu í hádeginu.
Verðbréfafyrirtæki og aðrir sem eru virkir kaupendur og seljendur á skuldabréfamarkaði hafi í kjölfar ákvörðunar FME tilkynnt um stöðvun viðskipta þar til klukkan tvö í dag. Júpíter rekstrarfélag, sem rekur verðbréfasjóði, tilkynnti í kjölfar ákvörðunar FME að stöðva viðskipti með hlutdeildarskírteini allra sjóða í rekstri félagsins. Stjórn Landsbréfa ákvað einnig að fresta viðskiptum með ríkisskuldabréfasjóði félagsins. Þá hafa Lánasjóður sveitarfélaga og Reykjavíkurborg veitt aðalmiðlurum tímabundna undanþágu á skyldum á eftirmarkaði, þar til opnað verður fyrir viðskipti á nýjan leik klukkan tvö. Aðalmiðlurum er því heimilt að leggja ekki fram kaup- og sölutilboð í viðskiptakerfi Kauphallarinnar.