Hlutverk Íbúðalánasjóðs mun verða takmarkað mikið í nánustu framtíð, samkvæmt upplýsingum Kjarnans. Búið er að stöðva viðskipti með skuldabréf Íbúðalánasjóðs til að gæta jafnræðis fjárfesta, en tillögur starfshóps um framtíðarskipan á húsnæðismarkaði verða kynntar opinberlega síðar í dag.
Ljóst er að viðskipti með bréf sjóðsins væru ekki stöðvuð nema að framundan væru miklar breytingar á starfsemi hans. Heimildir Kjarnans herma að starfsemi hans verði hætt og nýtt lánafyrirkomulag tekið upp til að fjármagna húsnæðiskaup. Tillögur starfshópsins voru ræddar í ríkisstjórn í morgun og líklegt verður að telja að þær séu afar róttækar, enda ríkir neyðarástand á húsnæðismarkaði. Eygló Harðardóttir velferðarráðherra ber ábyrgð á vinnunni.
Stærstur hluti skuldabréfa Íbúðalánasjóðs er í eigu íslenskra lífeyrissjóða.