Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar, segir að umhverfisráðuneytið hafi ekki verið spennandi kost fyrir sig þegar það losnaði en að hún útiloki ekki að hafa hug á ráðherraembætti síðar. Hún sér eftir Landsdómsmálinu, segist hafa öruggar heimildir fyrir því að það hafi verið runnið undan rifjum forystumanna síðustu ríkisstjórnar og hefur beðið Geir H. Haarde, sem var einn sóttur til saka fyrir Landsdómi, afsökunnar á sínum hluta í málinu. Þetta kemur fram í viðtali við Vigdísi í Morgunblaðinu í dag.
Vantar að taka umræðu um Samfylkinguna í landsdómsmálinu
Vigdís segir að enn eimi eftir af hatri og heift frá síðasta kjörtímabili sem hafi verið mikið átakatímabil. Þar hafi mörg mál verið sett upp, til dæmis Evrópusambandsmálið, stjórnarskrármálið, landsdómsmálið og umbylting fiskveiðistjórnunarkerfisins.
Hún tjáir sig síðan sérstaklega um landsdómsmálið og atburðarrásina sem leiddi til þess að Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra, sætti einn ákæru fyrir dómnum.Vigdís segir málið sýna ótrúlega hræsni Samfylkingarinnar, en hluti þingmanna hennar kaus gegn því að ákæra ráðherranna tvo úr sínum flokki sem lagt hafði verið til að ákæra, þau Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Björgvin G. Sigurðsson. „Það var fyrst og fremst Samfylkingin sem hlífði sínu fólki, það voru engin heilindi, eða raunverulegur vilji á bak við. Það var mjög skrýtið andrúmsloft í þingsalnum þegar þetta gerðist, það var svo þrúgandi að það var hægt að skera andrúmsloftið. Eftirleikinn vita allir. Umræðan hefur ekki verið tekin nægilega í samfélaginu, hvers vegna þingmenn Samfylkingarinnar fóru þessa leið.[...]Einhver sagði að það hefði átt að stöðva atkvæðagreiðsluna þegar í ljós kom hvernig í pottinn var búið, en ég skil ekki í þáverandi forseta að taka það í mál að brjóta tillöguna upp án þess að vara þingmenn við.“
Landsdómsmálið gildra sem hún gekk í
Vigdís lagðist gegn því að málið yrði dregið til baka þegar tillaga um það var lögð fram. Hún segist hafa verið á „þeim stað á þessu átakaþingi að ég var búin að taka slagi út af stjórnarskránni og ESB, og búin að sæta mikilli gagnrýni, og mér fannst ég ekki geta skipt um hest í miðri á. Eftir á að hyggja var það rangt hjá mér.“
Hún hefur síðar fundað með Geir H. Haarde og beðið han afsökunnar á sínum þætti. „Það sýnir hvað Geir er stórbrotinn persónuleiki að taka svona afsökunarbeiðni. Það sýnir styrk hans sem einstaklings, og hvað hann kemur heilsteyptur út úr þessum harmleik.“
Vigdís segist hafa fyrir því öruggar heimildir að landsdómsmálið hafi verið komið úr ranni forustumanna ríkisstjórnarinnar og að hún hafi einfaldlega gengið í gildruna sem forysta ríkisstjórnarinnar hafi lagt fyrir hana.
Vigdís segist hafa fyrir því öruggar heimildir að landsdómsmálið hafi verið komið úr ranni forustumanna ríkisstjórnarinnar og að hún hafi einfaldlega gengið í gildruna sem forysta ríkisstjórnarinnar hafi lagt fyrir hana.
Dónaskapur og hroki embættismannaelítu í Brussel
Undir lok viðtalsins tjáir Vigdís sig um tilraun Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra til að slíta viðræðum að Evrópusambandinu, en sambandið sjálft lítur ekki á bréfið sem hann sendi sem ígildi viðræðuslita. Vigdís segir að það sé „þvílíkur dónaskapur og hroki hjá embættismannaelítunni í Brussel, að koma svona fram við sjálfstætt og fullvalda ríki, maður á ekki orð til að lýsa því hvílíkur hroki birtist þarna.“
Hún segir að umsóknarferlið sé búið.