„Við höfum reynt að skera niður en reynslan hefur verið sú að undirstofnanir ríkisins verja sig með kjafti og klóm. Kerfið ver sig sjálft of notar fjölmiðla óspart til að mynda samúð með viðkomandi stofnun,“ segir Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis við Morgunblaðið í tilefni af gagnrýni Samtaka atvinnulífsins á mikið vægi skatta í að mæta tekjutapi ríkisins eftir hrun. Vigdís segir að nánast ekkert hafi verið hagrætt í ríkisrekstri frá haustinu 2008.
Guðlaugur Þór Þórðarson,varaformaður fjárlaganefndar, tekur undir með Vigdísi í samtali við blaðið og segir hagsmunaöfl sem haldi utan um hagsmuni einstakra stofnana mjög sterk. Þau beiti sér mikið og hafi greiðan aðgang að fjölmiðlum. Hann kallar eftir bandamönnum til að ná niður vaxtagreiðslum ríkissjóðs og lífeyrisskuldbindingum og um að forgangsraða vegna breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar.
Steingrímur J. Sigfússon, fyrrum fjármálaráðherra, vísar þeirri gagnrýni að ekkert hafi verið hagrætt í ríkisrekstri á bug og segir hana „steypu“.