„Það er orðið súrríalískt andrúmsloft í Leifstöð sem ISAVIA ohf ber ábyrgð á,“ skrifaði Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar Alþingis á Facebook í kvöld.
Þá skrifar þingmaðurinn: „Þetta er einmitt sama flugstöðin sem kolféll á öryggisleitarprófinu - sumir eru límdir við stólana sína sama hvað gengur á...“
Færsla Vigdísar Hauksdóttur á Facebook í kvöld.
Í samtali við Kjarnann segir Vigdís að gagnrýni hennar snúi einvörðungu að stjórn og stjórnendum Isavia, en ekki almennu starfsfólki sem sjálfsagt reyni að vinna störf sín vel. Hún gagnrýnir forgangsröðun stjórnar Isavia varðandi Leifsstöð, að háum fjármunum hafi verið varið til að fegra verslunarsvæðið, en ekki til að stækka flugstöðina til að þjónusta ferðafólk sem best.
„Endalausir hálfvitar í Leifsstöð“
Neðan við færsluna deilir þingmaðurinn grein, sem birtist nafnlaus inn á vefsíðunni Fararheill.is, með fyrirsögninni „Endalausir hálfvitar í Leifsstöð.“ Umrædd grein hefst á orðunum: „Fólk sem hugsar lítið eða ekkert er óhætt að kalla hálfvita. Það á sannarlega við um stjórnendur Keflavíkurflugvallar sem ættu að sjá sóma sinn í að segja störfum sínum lausum.“
Í greininni eru framkvæmdir í Leifsstöð harðlega gagnrýndar og sagðar nær einungis til þess fallnar að þjónka við verslunareigendur. „Flugstöð er ekki verslunarmiðstöð. Ekki aðeins hafa borist fjölmargar kvartanir yfir löngum röðum og töfum við innritun og öryggisleit. Líka má lesa talsvert á samfélagsmiðlum um óánægju ferðafólks með dapra aðstöðu fyrir biðfarþega í Leifsstöð. Verslanir taka nú það mikið pláss að þeir sem eru bara að bíða og hafa engan áhuga að versla verða oft að gera sér að góðu að standa uppréttir í tíma og ótíma. Það jafnvel í tvær til þrjár stundir því flugvöllurinn hvetur fólk til að mæta með minnst þriggja stunda fyrirvara á álagstímum. Hvenær eru álagstímar? Alltaf.“