Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, hefur sent frá sér yfirlýsingu um þau orð sem Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, lét frá sér í hennar garð í samkvæmi sem haldið var í tengslum við Búnaðarþing síðasta fimmtudagskvöld.
Vigdís segir að „afar særandi ummæli“ hafi verið látin falla og að hún hafi heyrt þau, sem og fleira starfsfólk Bændasamtakanna. Í umfjöllun á vef DV í gær sagði frá því að Sigurður Ingi hefði vísað til Vigdísar sem „hinnar svörtu“.
Ingveldur Sæmundsdóttir aðstoðarmaður Sigurðar Inga vísaði því þó á bug í samtali við DV að ráðherra hefði notað slíkt orðalag – hann hefði þess í stað sagt að hann vildi ekki halda halda á Sjálfstæðismanni eftir að sú hugmynd kom upp að hann og fleiri héldu á Vigdísi í einskonar „planka“ fyrir myndatöku.
Vigdís sjálf segir þetta hins vegar rangt. „Aðstoðarmaður ráðherrans var ekki við hlið hans þegar ummælin voru látin falla, eins og hún hefur haldið fram en myndir úr þessari myndatöku sýna það án alls vafa. Það er særandi þegar reynt er að gera lítið úr upplifun minni og þegar beinlínis rangar skýringar eru notaðar við það,“ segir Vigdís í yfirlýsingu sem hún birti á Facebook-síðu sinni í dag.
Neitar að bera ábyrgð á orðum ráðherra í sinn garð
Hún segir að hún hafi aldrei talið að hún þyrfti að setjast niður og skrifa yfirlýsingu af þessu tagi. „Ég hef aldrei látið húðlit, kynþátt, kynferði eða annað skilgreina mig. Ég hef alltaf talið að verk mín og gjörðir töluðu fyrir sig sjálf, en núna tel ég mig knúna til að tjá mig um það sem gerðist,“ skrifar hún.
„Ég stend með sjálfri mér þegar kemur að þessu, ég veit hvað ég heyrði, ég veit hvað var sagt. Ég neita að bera ábyrgð á þeim orðum sem ráðherrann viðhafði í minn garð. Duldir fordómar eru gríðarlegt samfélagsmein og grassera á öllum stigum samfélagsins. Þeir smætta verk einstaklinga og gjörðir niður í lit eða kyn,“ skrifar Vigdís.
Hún bætir því við að hún hyggist ekki tjá sig frekar um þetta, heldur kjósa að „horfa fram á veginn að vinna úr þeim góðu niðurstöðum sem fram komu á Búnaðarþingi.“
Yfirlýsingu Vigdísar má lesa hér að neðan:
Aldrei hélt ég að ég þyrfti að setjast niður og skrifa svona yfirlýsingu. Ég hef aldrei látið húðlit, kynþátt, kynferði...
Posted by Vigdís Häsler on Monday, April 4, 2022