Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, mun leggja fram skýrslu sem hann hefur unnið um ásakanir Víglundar Þorsteinssonar um ætluð lögbrot íslenskra ráðamanna, embættismanna og eftirlitsaðila þegar nýju bankarnir voru afhentir erlendum kröfuhöfum fyrirrennara þeirra á nefndarfundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar næstkomandi þriðjudag. Þetta staðfestir hann í svari við fyrirspurn Kjarnans.
Skýrslan er tilbúin og hefði verið lögð fram í þessari viku, en engin fundur er í nefndinni nú þar sem yfir stendur kjördæmavika. Nefndarmenn munu fá skýrsluna til yfirlestrar á mánudagskvöld, en hún mun verða flokkuð sem trúnaðarmál þar til að skýrslan hefur verið formlega lögð fram á fundinum á þriðjudag.
Alvarlegar ásakanir
Víglundur Þorsteinsson hefur aflað sér gagna undanfarin ár sem hann segir að renni stoðum undir þá skoðun hans að lögbrot hafi verið framin í uppgjöri stjórnvalda við kröfuhafa föllnu bankanna þriggja. Víglundur sendi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd bréf í janúar 2014 og nefndin ákvað í kjölfarið að fá Brynjar, sem situr í nefndinni, til að fara yfir ásakanir Víglundar.
Víglundur Þorsteinsson, fyrrum eigandi BM Vallár, segir að stjórnmálamenn, embættismenn í ráðuneytum og Fjármálaeftirlitið (FME) hafi framið stórfelld og margvísleg lögbrot þegar þeir ákváðu að breyta stofnúrskurði eftirlitsins um stofnun nýrra banka á grunni þeirra þriggja sem féllu í október 2008.
Í janúar síðastliðnum sendi Víglundur síðan fjölda gagna á þingmenn og fjölmiðla. Á meðal þeirra gagna voru stofnefnahagsreikningar nýju bankanna þriggja. Með fylgdi líka átta blaðsíðna minnisblað þar sem Víglundur sagði að stjórnmálamenn, embættismenn í ráðuneytum og Fjármálaeftirlitið (FME) hafi framið stórfelld og margvísleg lögbrot þegar þeir ákváðu að breyta stofnúrskurði eftirlitsins um stofnun nýrra banka á grunni þeirra þriggja sem féllu í október 2008. Víglundur vill meina að með þessu hafi erlendir „hrægammasjóðir“ átt að hagnast um 300 til 400 milljarða króna á kostnað þjóðarinnar.
Kjarninn fjallaði ítarlega um málið í lok janúar.
Hart tekist á
Í kjölfar ásakanna Víglundar sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra að honum þætti upplýsingarnar sláandi og boðaði rannsókn á stofnun nýju bankanna. Það er ekki sú skoðun sem Brynjar hefur stýrt og er nú lokið.
Tveir þeirra manna sem tóku hvað mestan þátt í samningum íslenska ríkisins við kröfuhafa um endurreisn íslensku viðskiptabankanna, Þorsteinn Þorsteinsson (sem var aðalsamningamaður Íslands í viðræðunum) og Jóhannes Karl Sveinsson (sem starfaði sem ráðgjafi hjá Fjármálaeftirlitinu og fjármálaráðuneytinu á þessum tíma) hafa í kjölfarið skrifað greinar þar sem þeir hafa algjörlega hafnað ávirðingum Víglundar.
Brynjar sagði sjálfur, í viðtali við RÚV í lok janúar, að það væri ljóst að hann myndi ekki komast að neinni niðurstöðu um hvort eitthvað væri hæft í ásökunum Víglundar um að stjórnvöld hefðu framið lögbrot í málinu. Hann sagði hins vegar að vel kæmi til greina að hann legði til að nefndin léti skoða nánar nokkra þá þætti sem Víglundur benti á.