Víglundur Þorsteinsson hefur sent alþingismönnum opið bréf þar sem hann fer fram á að þau „meintu og viðtæku lögbrot og afleiðingar þeirra“ sem hann sendi þingmönnum gögn um í janúar síðastliðnum verði rannsökuð af Ríkissaksóknara. Í bréfinu nedurtekur hann fyrri ásakanir á hendur íslenskum stjórnmálamönnum, embættismönnum og eftirlitsaðilum sem hann segir að hafi framið lögbrot og með því haft af íslenskum fyrirtækjum og heimilum um 400 til 500 milljarða króna við endurreisn bankakerfisins á árinu 2009. Þessir fjármunir hefðu verið færðir kröfuhöfum föllnu bankanna.
Í bréfinu segir að þessi verknaður hafi beinst gegn lögmætum ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins sem grundvallar hafi á jafnræði og sanngirni við lausn á stærsta efnahagsáfalli þjóðarinnar. „Í stað þess komu geðþóttaákvarðanir, ójafnræði, leynd, pólitískur klíkuskapur og vildarvinagreiðar með alvarlegum afleiðingum fyrir okkur Íslendinga. Með þessum ákvörðunum sýnist mér sem tveir ráðherrar hið minnsta, Steingrímur J. Sigfússon og Gylfi Magnússon hafi bakað sér ábyrgð samkvæmt reglum 8. og 9. laga um ráðherraábyrgð, gegnið gegn reglum neyðarlaga og annarra laga svo sem almennra hegningarlaga. Tekið sér vald sem Alþingi hafði falið Fjármálaeftirlitinu.“
Síðar í bréfinu segir Víglundur: „Ég tel hafið yfir allan vafa að þau gögn sem ég hef sent Alþingi geymi ítarlegar upplýsingar um alvarleg lögbrot ráðhera, embættismanna og fleiri svo sem bankamanna á árunum 2009 til 2013.“
Brynjar tók ekki undir ásakanir Víglundar
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Víglundur ber á torg ásakanir sínar. Það gerði hann í byrjun árs 2014 og aftur í janúar síðastliðnum.
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks sem situr í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, var fengin til að fara yfir málið og skilaði skýrslu 17. febrúar síðastliðinn. Í henni tók Brynjar ekki undir ásakanir Víglundur um að svikum og blekkingum hefði verið beitt við endurreisn bankakerfisins til að gæta hagsmuna erlendra aðila.
Víglundur taldi niðurstöðu Brynjars ekki hrekja ásakanir sínar og boðaði að hann myndi svara skýrslu Brynjars með ítarlegum hætti fyrir miðjan marsmánuð. Þau svör bárust í dag, 4. maí.