Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, fagnar því sérstaklega á Facebook síðu sinni að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra skuli standa með verkafólki í kjarasamningviðræðum aðila vinnumarkaðarins. Þeir áttu fund fyrr í dag, þar sem Sigmundur Davíð tók undir kröfur um verulega launahækkun verkafólks, að sögn Vilhjálms. „Átti mjög góðan fund með forsætisráðherra í dag þar sem staða kjaramála á íslenskum vinnumarkaði var m.a til umræðu. Það er gríðarlega ánægjulegt að heyra og finna að forsætisráðherra styðji okkar kröfur um að laun verkafólks hækki alverulega í komandi kjarasamningum. Hann tekur undir það að kjör verkafólks verði í það minnsta að duga fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út, en slíku er ekki til að dreifa í dag. Fram kom í máli hans að hann telur eins og ég að horfa eigi til krónutöluhækkana en ekki prósentuhækkana í komandi kjarasamningum enda ljóst að það kemur milli og tekjulægstu hópunum hvað best að nota krónutöluhækkun. Það ber að þakka þeim stjórnmálamönnum sem taka undir okkar kröfur um að lagfæra þurfi kjör verkafólks svo um munar og þeir sem hafa lagt okkur lið fyrir utan forsætisráðherra er t.d. Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna og Ásmundur Friðriksson þingmaður sjálfstæðismanna. Ég auglýsi hér með eftir afstöðu annarra þingmanna hvort þeir styði okkur ekki í kröfunni um að lagfæra kjör verkafóks svo um munar í komandi kjarasamningum,“ segir Vilhjálmur á Facebook-síðu sinni.
Kjarasamningar 45 stéttarfélaga og sambanda verða lausir frá og með föstudeginum næstkomandi. Ekkert hefur miðað í kjarasamningsviðræðum aðila vinnumarkaðarins en gjörólík sýn Samtaka atvinnulífsins og verkalýðsforystunnar hefur hindrað möguleika á því að samningar náist. Krafa verkalýðsforystunnar er ekki síst sú að lægstu laun verður hækkuð verulega frá því sem nú er. Í kröfugerð Starfsgreinasambandsins, sem er með sextán aðildarfélög innan sinna vébanda og tólf þúsund félagsmenn, er sú að lægstu laun hækki úr 214 þúsund í 300 þúsund. Þá er einnig uppi krafa um að laun innan greina sem eru að skila góðri afkomu hækki verulega. Hækkunin sem verkalýðsforystan hefur horft til er á bilinu 20 til 30 prósent, á meðan Samtök atvinnulífsins telja svigrúm fyrir 3,5 til 5 prósent hækkun. Ef laun muni hækki mikið meira en það, sé hætta á því að hagkerfið standi ekki undir slíku, sem leiði til verðbólga með tilheyrandi kjaraskerðingu fyrir alla.