Níu þingmenn úr þremur flokkum, Pírötum, Flokki fólksins og Samfylkingunni, hafa lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað og lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Ef frumvarpið verður samþykkt munu lesendur Lögbirtingablaðsins ekki greiða fyrir aðgang að því.
Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata en með honum eru þau Andrés Ingi Jónsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Gísli Rafn Ólafsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Tómas A. Tómasson, Helga Vala Helgadóttir og Jóhann Páll Jóhannsson.
Fram kemur í frumvarpinu að við rafræna útgáfu skuli tryggja öryggi og áreiðanleika birtra upplýsinga og að þær varðveitist á varanlegan hátt og gagnasnið útgáfunnar sé opið og aðgengilegt. Rafrænni útgáfu Lögbirtingablaðs skuli hagað þannig, eftir því sem tæknilega er unnt, að komið sé í veg fyrir úrvinnslu og samtengingu persónuupplýsinga sem birtar eru. Við rafræna útgáfu skuli útgáfudagur tilgreindur.
Haga skuli útgáfu Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs þannig að vél- og hugbúnaður sem flestra nýtist. Skulu þeir sem þess óska geta keypt Stjórnartíðindi eða Lögbirtingablað í prentuðu formi í áskrift eða fengið einstök tölublöð send gegn greiðslu kostnaðar af prentun þeirra og sendingu.
Rafræn áskrift kostar 3.000 krónur á ári
Dómsmálaráðuneytið gefur út Lögbirtingablað en það kom fyrst út í prentuðu formi í ársbyrjun 1908 og var þá gefið út einu sinni í viku. Síðan hefur Lögbirtingablað verið gefið út í prentuðu formi óslitið til dagsins í dag.
Samkvæmt upplýsingum á vef Lögbirtingablaðsins hefur útgáfan vaxið jafnt og þétt undanfarin ár og hefur síðustu árin verið yfir 1.200 blaðsíður á ári. Í ársbyrjun 2002 var ákveðið að gera blaðið einnig aðgengilegt á netinu og er nú hægt að nálgast þar öll tölublöð sem komið hafa út frá 1. janúar 2001.
Samkvæmt lögum skal birta í Lögbirtingablaði dómsmálaauglýsingar, svo sem stefnur til dóms, úrskurði um töku búa til opinberra skipta og áskoranir um kröfulýsingar, auglýsingar um skiptafundi og skiptalok þrotabúa, nauðungarsölur, þar á meðal á fasteignum búa sem eru til opinberra skipta, auglýsingar um vogrek, óskilafé og fundið fé, auglýsingar um kaupmála hjóna, lögræðissviptingu og brottfall hennar, lögboðnar auglýsingar um félög og firmu, sérleyfi er stjórnvöld veita, opinber verðlagsákvæði og annað það er stjórnvöldum þykir rétt að birta almenningi.
Rafræn áskrift af Lögbirtingablaðinu kostar 3.000 krónur á ári.
Allt yrði aðgengilegt á tölvutækan hátt á aðgengilegu og opnu gagnasniði í opinni gagnagátt
Í greinargerðinni með frumvarpinu segir að með þessari lagabreytingu yrði það gert að skyldu að Stjórnartíðindum og Lögbirtingablaði yrði dreift á rafrænan hátt, að aðgengi að rafrænni útgáfu yrði notendum að kostnaðarlausu og að allt sem birt er í þessum ritum yrði aðgengilegt á tölvutækan hátt á aðgengilegu og opnu gagnasniði í opinni gagnagátt, til dæmis opingogn.is.
Samhliða því er lagt til að fella brott grein úr lögum um aukatekjur ríkissjóðs enda yrði ekki lengur kveðið á um í lögum um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað að greiða skyldi gjald fyrir rafrænan aðgang að Lögbirtingablaði samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs.
Hægt að nálgast ársreikninga íslenskra fyrirtækja án endurgjalds
Þau tímamót urðu í byrjun árs 2021 að hægt var að nálgast ársreikninga íslenskra fyrirtækja án endurgjalds eftir að lög þess efnis tóku gildi. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þáverandi nýsköpunar- og ferðamálaráðherra, lagði frumvarpið fram en Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata hafði endurtekið flutt sambærileg frumvörp þar sem afnám gjaldtöku á upplýsingum úr ársreikningum var lagt til.
Björn Leví flutti frumvarp um afnám gjaldtöku fyrir aðgang að ársreikningum í september árið 2017 og svo aftur í desember sama ár. Það frumvarp fór í fyrstu umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd sem kallaði eftir umsögnum um málið, en rataði svo aldrei þaðan. Embætti ríkisskattstjóra skrifaði umsögn um frumvarpið á sínum tíma og sagði það kippa fótum undan rekstri þess. Enn fremur líkti embættið afnámi gjaldtökunnar við það að gera aðgang að söfnum landsins ókeypis.
Ríkisskattstjóri sagði að ef fyrirhugaðar lagabreytingar fram að ganga þá væri æskilegt að veitt yrði heimild til að setja reglugerð um afmörkun þeirra upplýsinga sem veita ætti gjaldfrjálst aðgengi að og framkvæmd hins rafræna aðgengis. „Hvort heldur átt er við einstakar uppflettingar almennings eða aðgang fyrirtækja að gagnagrunnum eða afritun einstakra skráa vegna úrvinnslu upplýsinga.“
Björn Leví endurflutti sama frumvarpið þrisvar sinnum á árunum 2017 til 2019, en það komst aldrei úr nefnd. Í apríl árið 2020, rúmu hálfu ári eftir þriðja endurflutning Björns Levís kom Þórdís Kolbrún Reykfjörð svo fram með eigið frumvarp sem sneri að ársreikningum og endurskoðun á þeim en í því var lagt til að aðgengi að ársreikningum yrði gjaldfrjálst. Frumvarpið var samþykkt sumarið 2020, en lögin tóku gildi við upphaf 2021, eins og áður segir.