Samtök atvinnulífsins (SA) segja að breyta þurfi lögum til þess að auðvelda aðflutning sérfræðinga frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) og vinna að öðru leyti með virkum hætti að því að afnema hindranir í regluverki til þess að gera umhverfið meira aðlaðandi fyrir erlenda sérfræðinga. „Ísland hefur ekki mörg ár til stefnu til að bíða eftir grænbók, hvítbók og víðtæku samráði, sem hugsanlega leiða síðar meir til lagabreytinga, heldur þarf að bregðast hratt við.“
Þetta kemur fram í umsögn SA um tillögu þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2022 til 2025 sem skilað var inn til þingsins í gær. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra er flutningsmaður tillögunnar.
Fyrsta og önnur kynslóð innflytjenda 17,1 prósent íbúa
Framkvæmdaáætlun um málefni innflytjenda er ætlað að kynna aðgerðir sem endurspegla þau meginmarkið laga um málefni innflytjenda að stuðla að samfélagi þar sem öll geta verið virkir þátttakendur óháð þjóðerni og uppruna.
Við mótun framkvæmdaáætlunar var leitað til fjölda aðila sem hafa þekkingu á málefnum innflytjenda. Alls var óskað eftir tillögum frá 106 aðilum og bárust svör frá 23. Unnið var úr innsendum hugmyndum og tillögum og í kjölfarið var fundað með fjölda fag- og hagsmunaaðilum hjá samtökum, sveitarfélögum og stofnunum og fengnar umsagnir og frekari ábendingar. Líkt og framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2016 til 2019, byggist framkvæmdaáætlunin á fimm stoðum, þ.e. samfélagi, fjölskyldu, menntun, atvinnumarkaði og fólki á flótta.
Í niðurstöðum félagsvísa Hagstofu Íslands frá 2019 kemur fram að það sem meðal annars einkennir innflytjendur á Íslandi er að flestir eru á vinnualdri, hafa dvalið hér í stuttan tíma og eru að meiri hluta karlmenn. „Flestir innflytjendur á Íslandi koma frá löndum þar sem heilsa, menntun og fjárhagur er góður. Almennt eru færri innflytjendur en innlendir með mjög háar heildartekjur og þrátt fyrir að hafa gott aðgengi að íslenskum vinnumarkaði eru innflytjendur líklegri en innlendir til þess að vinna störf þar sem menntun þeirra nýtist ekki.“
Tekur ekki á skorti á sérhæfðu starfsfólki
Ein þeirra aðgerða sem tiltekin er í framkvæmdaáætluninni er endurskoðun laga um atvinnuréttindi útlendinga. Sú endurskoðun á að eiga sér stað í ár, 2022. Markmið breytinganna er að rýmka ákvæð er varða útgáfu dvalarleyfa á grundvelli atvinnuþátttöku og að skilvirkni verði aukin með einföldun ferla. Í þingsályktunartillögunni segir:„Umsóknarferli um dvalar- og atvinnuleyfi fyrir einstaklinga sem sinna störfum sem krefjast sérfræðiþekkingar verði einfaldað. Tryggt verði að fólk sem fær dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eða sérstakra tengsla við landið fái samhliða óbundið atvinnuleyfi.“
Fyrirliggjandi þingsályktunartillaga taki ekki á ríkjandi skorti á sérhæfðu og langskólagengnu starfsfólki. „Starfsfólki sem öll þróuð ríki keppast nú um að laða til sín. Þannig þarf að móta framsækna stefnu í innflytjendamálum til að auka nýsköpun, manna laus störf bæði í einka- og opinbera geiranum og auka þar með útflutningstekjur og vöxt, bæta opinbera þjónustu og styrkja velferðarkerfið. Slík stefna þarf að standa vörð um og styrkja alþjóðlega samkeppnishæfni Íslands.“
Vantar níu þúsund í hugverkaiðnað
Að mati SA þarf strax að ráðast í aðgerðir til að mæta þessum brýna vanda. Útlendingalögin heimili frjálst flæði fólks innan EES en innflutningur frá öðrum heimsálfum en Evrópu sé háður miklum takmörkunum.
Samtökin vilja að lögum verði breytt til þess að auðvelda aðflutning sérfræðinga frá ríkjum utan EES og vinna að öðru leyti með virkum hætti að því að afnema hindranir í regluverki til þess að gera umhverfið meira aðlaðandi fyrir erlenda sérfræðinga. „auðvelda aðflutning sérfræðinga frá ríkjum utan EES og vinna að öðru leyti með virkum hætti að því að afnema hindranir í regluverki til þess að gera umhverfið meira aðlaðandi fyrir erlenda sérfræðinga.“
Samtök iðnaðarins, sem tilheyra SA, birtu greiningu fyrr í þessum mánuði þar sem þau sögðu að níu þúsund sérfræðinga þurfi til vaxta í hugverkaiðnaði á næstu fimm árum. Það mat er byggt á niðurstöðum könnunar meðal stjórnenda fyrirtækja í hugverkaiðnaði innan samtakanna. Um er að ræða um 1.800 manns að meðaltali á ári. Í könnuninni kom fram að í kringum 80 prósent fyrirtækjanna sem voru undir í henni vanti í dag starfsfólk til að viðhalda starfsemi sinni.