Tveir fyrrverandi þingmenn Samfylkingarinnar, þeir Mörður Árnason og Kristján L. Möller, ætla að leggja fram tillögu á landsfundi flokksins um að flokkurinn fái nafnið Jafnaðarflokkurinn. Frá þessu var sagt í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins.
Í frétt RÚV er haft eftir Merði að mörgum innan Samfylkingarinnar hafi fundist að það ætti að breyta nafni flokksins, þannig að það vísi með beinni hætti til stefnu hans.
Nafnið hafi á sínum tíma ekki verið ákveðið, heldur hafi það fremur orðið til út frá aðferðinni sem beitt var við stofnun flokksins um aldamótin.
„Við erum ekki að þessu, ekki út af fyrir sig, til þess að ná í eitthvert nýtt fylgi, heldur erum við að þessu til að líða betur í flokknum, til að flokkurinn verði samkvæmari sjálfum sér hvað nafn og ásýnd varðar,“ sagði Mörður við RÚV.
Varð Samfylkingin – Jafnaðarmannaflokkur Íslands árið 2013
Fyrstu þrettán árin frá stofnun hét Samfylkingin einfaldlega Samfylkingin. Nafninu var hins vegar breytt á landsfundi flokksins árið 2013 og síðan þá hefur flokkurinn heitið Samfylkingin – Jafnaðarmannaflokkur Íslands.
Jóhanna Sigurðardóttir þáverandi forsætisráðherra og Margrét S. Björnsdóttir, fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar flokksins, báru þá tillögu fram.
Uppfært: Tillaga Marðar og Kristjáns felur í sér að nafn flokksins verði Jafnaðarflokkurinn, ekki Jafnaðarflokkur Íslands, eins og áður sagði í fyrirsögn, undirfyrirsögn og meginmáli.