Carbfix ohf. undirbýr framkvæmdir við Coda Terminal, móttöku- og geymslustöð fyrir koltvísýring (CO2) í Straumsvík. Stöðin verður fyrsta sinnar tegundar á heimsvísu en þar verður svokallaðri Carbfix-tækni beitt, sem felst í því að CO2 er leyst í vatni og því dælt djúpt niður í berglögin. Þar hvarfast það við berg, eins og basalt, og verður að steindum.
Fyrsta skref í umhverfismati framkvæmdarinnar hefur nú verið tekið með framlagningu matsáætlunar til Skipulagsstofnunar.
Svona er starfsemin hugsuð í stuttu máli: CO2 yrði fangað úr útblæstri frá iðnaði í Evrópu og flutt í gasformi með skipum til Straumsvíkur þar sem því yrði dælt í geymslutanka við hafnarbakkann. Þaðan yrði því veitt um lagnir að niðurdælingarholum handan Reykjanesbrautar þar sem því yrði dælt niður í berglögin. Auk þess væri hægt að nýta innviði Coda Terminal til að dæla niður CO2 sem er fangað frá innlendri stóriðjustarfsemi og beint úr andrúmslofti með loftsugum.
Tilraunir og þróun á Carbfix-tækninni hafa staðið yfir frá árinu 2007 og frá 2014 hefur tæknin verið hluti af hefðbundnum rekstri Hellisheiðarvirkjunar og minnkað útblástur CO2 frá henni um þriðjung.
Coda Terminal hf. sem er félag í eigu Carbfix ohf. Carbfix varð til sem samstarfsverkefni milli Orkuveitu Reykjavíkur, Háskóla Íslands, CNRS í Touluse og Earth Institute við Columbia-háskóla árið 2006. Í ársbyrjun 2020 varð Carbfix að sjálfstæðu dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur.
Í matsáætluninni kemur fram að í Straumsvík séu kjöraðstæður fyrir starfsemi á borð við Coda Terminal. Hafnarmannvirki og dreifikerfi raforku eru til staðar auk þess sem öflugir grunnvatnsstraumar og ferskt basaltberg í nágrenni Straumsvíkur henta að sögn framkvæmdaaðila einkar vel fyrir Carbfix-tæknina.
Rekstur Coda Terminal yrði byggður upp í áföngum. Gert er ráð fyrir að stöðin hafi náð fullum afköstum árið 2031 og að þau afköst samsvari varanlegri bindingu á allt að þremur milljónum tonna af CO2 á ári. Til að setja það í samhengi þá yrði bundið við full afköst álíka mikið og samsvarar losun frá allri bílaumferð á Íslandi á ríflega þremur árum.
Fyrirhugað framkvæmdasvæði Coda Terminal er í jaðri Hafnarfjarðar, í nálægð við Straumsvík. Álver Rio Tinto er í Straumsvík og er þar með hafnaraðstöðu. Sunnan álversins liggur Reykjanesbraut og sunnan hennar er athafna- og iðnaðarsvæði Hafnarfjarðar í Kapelluhrauni og Hellnahrauni. Austan álversins eru íbúðahverfi Hafnarfjarðar, á Hvaleyrarholtinu og Völlunum. Þar er einnig golfvöllur Keilis, Hvaleyrarvöllur.
Innviðir sem byggja þarf upp fyrir starfsemina eru geymslutankar í nágrenni hafnarbakka, lagnir, borteigar og niðurdælingarholur. Niðurdælingarholur verða nokkrar saman á hverjum borteig og verður varanlegt skýli yfir hverri borholu. Þá er þjónustuvegur að hverjum borteig og lagnir.
Á svæðinu er að auki fyrirhuguð bygging sem mun hýsa skrifstofur auk sýningar- og fræðslurýmis.
Reykjanes er sem kunnugt er á virku eldgosa- og jarðskjálftasvæði. Skjálftavirkni á svæðinu í kringum Straumsvík hefur í gegnum tíðina verið lítil.
Niðurdæling getur valdið jarðskjálftum
Mögulegt er að niðurdæling á CO2 geti valdið spennu í jarðskorpunni á geymslusvæðinu sem leitt geti til smárra jarðskjálfta þegar þessi spenna losnar, eða flýtt fyrir jarðskjálftum sem óhjákvæmilega myndu eiga sér stað síðar.
Vegna niðurdælingar á Hellisheiði mældist aukin skjálftavirkni og voru stærstu skjálftar um 4,0 að stærð. Í Straumsvík er hins vegar stefnt á mun grynnri niðurdælingu en á öðrum geymslusvæðum Carbfix á Hellisheiði. Gert er ráð fyrir að dælt verði niður í 300-700 metra djúpar holur, en niðurdælingarholur á Hellisheiði eru allt að 2.500 m djúpar.
Forkönnun á skjálftahættu vegna niðurdælingarinnar bendir til að hætta á finnanlegri skjálftavirkni á svæðinu sé óveruleg, segir í matsáætluninni.
En hvaðan kemur nafnið Coda Terminal?
Nafnið Coda er dregið af latneska orðinu „cauda“ sem þýðir rófa. Í tónlist er Coda notað yfir niðurlagskafla tónverks, aðskilinn aðalverkinu til að ljúka því á skýran og áhrifaríkan hátt. Það endurspeglar vel markmið Coda Terminal.
Undirbúningur framkvæmdarinnar hófst um mitt ár 2022 með forhönnun, samtali við hagsmunaaðila, vinnu við leyfisferla og skipulagsvinnu. Stefnt er að rannsóknarborunum síðar á þessu ári, en áætlað er að hefja rekstur árið 2026. Gert er ráð fyrir að Coda Terminal verði fullbyggð árið 2031.
Skipulag framkvæmdarinnar
Gert er ráð fyrir að innan hvers borteigs geti verið allt að 8 niðurdælingarholur og að borteigar geti verið staðsettir með um 250 metra millibili. Gaslögn með koltvísýringi er leidd niður í fóðraða niðurdælingarholu auk þess sem vatni er jafnframt dælt niður í holuna. Í ungu og fersku bergi líkt og á hinu fyrirhugaða framkvæmdasvæði, eru holrými opin og sprungur ófylltar.
Miðað er við að CO2 leysist upp í vatninu á allt að 250 metra dýpi og að uppleyst CO2 í vatni fari út úr fóðringu á um 300-700 m dýpi, neðan efstu grunnvatnslaga en ofan háhitakerfisins. Fyrirhuguð orkuþörf niðurdælingarinnar er 23 kílóvattstundir (kWh) á hvert tonn af koltvísýringi. Fyrirhuguð vatnsnotkun framkvæmdarinnar er allt að 2.500 L/s. Fyrir hvert tonn af CO2 sem dælt er niður þarf um 25 tonn af vatni.
Knúin jarðefnaeldsneyti
Í matsáætluninni kemur fram að sérútbúin skip yrðu notuð við flutning á koltvísýringi frá iðnaði í Evrópu og stefnt er að því að þau verði knúin „grænu eldsneyti“, eins og að er orðað, sé þess kostur. Slík skip eru hins vegar ekki til en hönnun þeirra stendur yfir. Því yrðu flutningaskipin fyrst um sinn knúin jarðefnaeldsneyti.
Uppbygging Coda Terminal myndi verða í þremur áföngum. Í þeim fyrsta er áætlað að dæla niður allt að 500 þúsund tonnum af CO2 árlega. Í 2. áfanga yrði niðurdælingin aukin í alls 1 milljón tonn árlega og í þeim þriðja yrði niðurdælingin aukin í alls 3 milljónir tonn á ári.
Stækkun hafnarinnar áformuð
Aðalskipulag Hafnarfjarðar gerir ráð fyrir stækkun hafnarmannvirkja í Straumsvík. Hafnarfjarðarhöfn í samstarfi við Vegagerðina vinnur sem stendur að stækkun hafnarinnar og kæmi sú stækkun til með að nýtast þeim flutningaskipum sem flytja munu CO2 hingað til lands til niðurdælingar.
Framkvæmdasvæðið er ýmist í eigu Rio Tinto, landeigandafélags Óttarsstaðalands eða Hafnarfjarðarkaupstaðar og í matsáætlun kemur fram að allir aðilar séu upplýstir og samþykkir því að land þeirra sé tekið fyrir í umhverfismati.
Aðflutt CO2
Áform um niðurdælingu CO2 og varanleg binding þess í bergi styður við aðgerðaráætlun íslenska ríkisins í loftslagsmálum. „Með Coda Terminal verða til innviðir til niðurdælingar aðflutts CO2 frá Evrópu,“ segir í matsáætluninni. „Þessir innviðir gætu nýst innlendum stóriðjufyrirtækjum þegar föngun á CO2 hefst.“
Losun gróðurhúsalofttegunda heldur áfram að aukast á heimsvísu. Miðað við núverandi stefnur og aðgerðir ríkja er búist við 2,0 -3,6°C hnattrænni hlýnun fyrir árið 2100, segir ennfremur í matsáætluninni. „Standi ríki þar að auki við öll loforð og markmið þá er samt búist við 1,7-2,6°C hnattrænni hlýnun.“
Umfang hlýnunar er í beinu hlutfalli við uppsafnaða losun koltvísýrings. „Samfara hlýnun verða aftakaatburðir í veðri algengari, s.s. meiri öfgar í hitabylgjum, þurrkum og ofsarigningum,“ segir í skýrslu Carbfix. Samkvæmt nýjustu skýrslu Milliríkjanefndar um loftslagsmál er „óhjákvæmilegt að fjarlægja CO2 úr lofthjúpnum til að ná kolefnishlutleysi“.
Þá segir: „Umfang föngunar og bindingar CO2 á heimsvísu er mun minna en það þyrfti að vera til að stöðva hnattræna hlýnun við 1,5°C eða 2,0°C samkvæmt sviðsmyndum IPCC. Coda Terminal verður stöð fyrir varanlega förgun CO2 sem kemur þannig í veg fyrir losun CO2 til andrúmslofts.“
Carbfix segir að á Íslandi séu kjöraðstæður fyrir varanlega bindingu CO2 í bergi. Áætlað er að hægt sé að geyma um 400 gígatonn af CO2 á sprungusvæðum á Íslandi. Þegar tekið sé tillit til ákveðinna skilyrða svo sem fjarlægðar frá íbúabyggð, vatnsverndarsvæða og annarra verndarsvæða væri hægt að nýta um 2 prósent af flatarmáli Íslands til niðurdælingar á CO2. Fyrirhugað geymslusvæði Coda Terminal við Straumsvík er innan þess.