Forsíðufrétt Fréttablaðsins í gær vakti athygli víða. Þar var sagt frá því að ríkið ætlaði að liðka fyrir millilandaflugi frá Egilsstöðum og Akureyri með því að fella niður gjöld á flugfélög fyrstu tvö árin og aðstoða svæðin við markaðssetningu með fjárframlögum. Þetta var haft eftir Matthíasi Imsland, formanns starfshóps sem forsætisráðherra skipaði í lok mars síðastliðins til að kannaa möguleika á millilandaflugi frá landsbyggðunum. Matthías, sem er dags daglega aðstoðarmaður félags- og húsnæðismálaráðherra hefur mikla reynslu af fluggeiranum eftir að hafa m.a. verið forstjóri Iceland Express um árabil, sagði að tekjur hins opinbera af millilandafluginu yrðu nærri 1,3 milljörðum króna árlega. Þetta kæmi fram í skýrslu sem unnin hefði verið fyrir hópinn á þeim þremur mánuðum sem hann hefur starfað.
Þessi niðurstaða Matthíasar og félaga er mjög í andstöðu við frétt sem ferðavefurinn Túristi.is flutti í byrjun apríl síðastliðins. Þar sagði frá því að vefurinn hefði leitað upplýsinga hjá Isavia, sem rekur flugvelli landsins, um hvort erlend flugfélög hefðu skoðað möguleikann á því að bjóða upp á flug til útlanda frá Akureyri eða Egilsstöðum. Niðurstaðan væri að enginn slíkur áhugi hefði verið sýndur árum saman. Túristi.is var einnig verið í sambandi við talsmenn easyJet, Norwegian og þýsku flugfélaganna Air Berlin og Germanwings, sem sögðu öll að engin áform væru uppi um að hefja áætlunarflug til íslensku landsbyggðarinnar.
Það er eðlilegt að spyrja sig, í ljósi yfirlýsinga Matthíasar í Fréttablaðinu, hvað hafi breyst á síðustu tæpu þremur mánuðum?