Fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram tillaga til þingsályktunar um flutning Útlendingastofnunar til Reykjanesbæjar.
Fyrsti flutningsmaður tillögunnar er Birgir Þórarinsson og með honum eru þau Guðrún Hafsteinsdóttir, Vilhjálmur Árnason og Ásmundur Friðriksson.
Í greinargerðinni með frumvarpinu er bent á að Útlendingastofnun sé ein af undirstofnunum dómsmálaráðuneytis og starfi samkvæmt löggjöf um málefni útlendinga. Umfangsmesti þátturinn í starfsemi Útlendingastofnunar sé útgáfa dvalarleyfa, hvort sem um er að ræða dvalarleyfi á grundvelli atvinnuþátttöku eða til dæmis fjölskyldusameiningar, námsvistar eða vistráðningar, og afgreiðsla umsókna um alþjóðlega vernd og umsókna um íslenskan ríkisborgararétt.
Stjórt skref í átt að því að tryggja fjölbreytt atvinnutækifæri utan höfuðborgarsvæðisins
„Stofnunin er til húsa að Dalvegi 18 í Kópavogi og er vinnuveitandi 86 starfsmanna. Mikill meiri hluti opinberra stofnana er á höfuðborgarsvæðinu og af því leiðir að störf við flestar stofnanir standa í raun einungis íbúum höfuðborgarsvæðisins til boða. Með flutningi Útlendingastofnunar til Reykjanesbæjar væri tekið stórt skref í átt að því að tryggja fjölbreytt atvinnutækifæri utan höfuðborgarsvæðisins. Á Suðurnesjum er hlutfall háskólamenntaðra mun lægra en landsmeðaltal. Mikill meiri hluti starfa hjá Útlendingastofnun er sérfræðistörf sem krefjast háskólamenntunar. Með flutningi stofnunarinnar til Reykjanesbæjar væri því sérfræðistörfum fjölgað og hlutfall háskólamenntaðra á svæðinu bætt.
Þar að auki býr fjöldi innflytjenda á Suðurnesjum sem nýtir sér þjónustu stofnunarinnar, en um 9 prósent íbúa í bænum eru af erlendum uppruna. Þá er rétt að líta til þess að yfirgnæfandi meiri hluti þeirra sem sækjast eftir alþjóðlegri vernd kemur til landsins um Keflavíkurflugvöll og því væri hentugt að stofnunin væri nær flugvellinum. Jafnframt hefur velferðarsvið Reykjanesbæjar séð um þjónustu og aðbúnað þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi síðan árið 2004 og var bærinn fyrsta sveitarfélagið sem bauð upp á þá þjónustu,“ segir í greinargerðinni.
Myndi laða að nýja íbúa
Þá kemur fram að fólksfækkun á landsbyggðinni vegna flutninga til höfuðborgarsvæðisins hafi um langa hríð verið eitt af meginvandamálum samfélaga á landsbyggðinni og sömuleiðis skortur á störfum og lítil fjölbreytni þeirra. Aukinn fjöldi og meiri fjölbreytni starfa utan höfuðborgarsvæðisins auki líkur á því að fólk af landsbyggðinni sem sækir sér menntun á höfuðborgarsvæðinu snúi aftur til heimabæjar síns eftir að námi lýkur. Jafnframt laði slíkt að nýja íbúa.
„Í skýrslu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um samfélagsgreiningu á Suðurnesjum frá 8. október 2021 kemur fram að atvinnulíf á Suðurnesjum sé einhæft og framboð á atvinnu takmarkað. Þá kjósi margir íbúar á svæðinu að starfa í Reykjavík þar sem fleiri möguleika sé að finna og fjölbreyttara úrval starfa í boði. Atvinnulíf í Reykjanesbæ er að miklu leyti háð flugsamgöngum og ferðaþjónustu og lítið um sérfræðistörf á öðrum sviðum. Flutningur Útlendingastofnunar til sveitarfélagsins myndi því ótvírætt fela í sér nauðsynlega fjölbreytni vinnumarkaðarins á Suðurnesjum.
Atvinnumöguleikar ráða óneitanlega miklu þegar einstaklingar ákveða hvar skal búa, en þeir möguleikar eru umtalsvert minni í Reykjanesbæ en á höfuðborgarsvæðinu. Bera opinberar tölur um atvinnuleysi það skýrlega með sér. Samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar var áætlað atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu í desember 2021 5 prósent, en á sama tíma var atvinnuleysi í Reykjanesbæ 9,9 prósent. Slíkt misræmi milli bæjarfélaga er óheppilegt og því rétt að bregðast við með því að efla framboð á atvinnu í Reykjanesbæ og auka fjölbreytni hennar eins og hér er lagt til,“ segir í greinargerðinni.
Að lokum segir að þrátt fyrir að eitthvert óhagræði yrði fyrir núverandi starfsmenn Útlendingastofnunar að því að starfsemin yrði flutt út fyrir höfuðborgarsvæðið, þá sé Reykjanesbær skammt frá og því ekki sérlega íþyngjandi fyrir starfsmenn stofnunarinnar ef hún yrði flutt þangað.