Lögmaður slitastjórnar Kaupþings ætlar að krefjast þess fyrir breskum dómstólum í dag að 2,2 milljarða punda skaðabótamál fasteignajöfursins Vincent Tchenguiz gegn slitastjórninni verði tekið fyrir hjá íslenskum dómstólum. Málið var fyrst höfðað fyrir breskum dómstólum. Bótakrafan nemur um 430 milljörðum króna miðað við gengi krónu gagnvart pundi í dag.
Þetta kemur fram á vefsíðunni The Lawyer, sem vitnað er til á vef RÚV. Tchenguiz stefndi einnig endurskoðunarfyrirtækinu Grant Thornton og Jóhannesi Rúnari Jóhannessyni, formanni slitastjórnar Kaupþings.
Tchenguiz telur þá bera ábyrgð á tjóni sem hann hafi orðið fyrir þegar efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar, Serious Fraud Office, rannsakaði lánveitingar Kaupþings til hans og bróður hans, Robert Tchenguiz, en hann var einn stærsti skuldari íslensku bankanna fyrir hrun þeirra, einkum Kaupþings.
Sú rannsókn var felld niður og féllst SFO á að greiða Tchenguiz 3 milljónir punda í skaðabætur, eða sem nemur um 600 milljónum króna.
Fram kom í frétt Telegraph af skaðabótamálinu að Tchenguiz telji að slitastjórnin og endurskoðunarfyrirtækið hafi unnið saman að því að fá SFO til að rannsaka sig. Þeir hafi vonað að sú rannsókn myndi leiða til þess að 1,6 milljarða punda krafa hans á Kaupþing yrði ógild.
Auglýsing
Slitastjórn Kaupþings hefur ávallt hafnað öllum ásökunum Vincent.