Fyrirtækið Iðunn H2 og Reykjanesbær hafa undirritað viljayfirlýsingu sem snýr að uppbyggingu Iðunnar á vetnisverksmiðju í Helguvík. Samkvæmt viljayfirlýsingunni er gert ráð fyrir að verksmiðjan verði reist í nokkrum þrepum en muni fullkláruð geta framleitt 40 þúsund tonn af vetni árlega. Þau áform eru þó háð því að fýsileikakönnun fyrir verkefnið sem Iðunn er nú að láta vinna skili jákvæðum niðurstöðum.
Auður Nanna Baldvinsdóttir, framkvæmdastjóri og annar stofnenda Iðunnar, segir í samtali við Kjarnann það geta tekið fjögur til sex ár að koma verksmiðju sem þessari á laggirnar, ef af framkvæmdinni verður. Til þess að það geti gerst þurfi ýmislegt fleira en jákvæða niðurstöðu úr fýsileikakönnun.
„Við erum algjörlega háð því að Suðurnesjalína tvö verði að veruleika,“ segir Auður og bendir á að deilur hafi staðið yfir um framkvæmd hennar í 15 ár. Fyrirtækið sé aftur á móti tilbúið til að skoða „minni fasa ef að það þýðir að við getum komist af stað og gert það á hagkvæman máta,“ bætir hún við.
Orkuþörfin 300 megavött
Framleiðsla á vetni fer fram með rafgreiningu og til þess þarf töluverða orku. „40 þúsund tonn [af vetni] er 300 megavatta vinnsla í um það bil 90 prósent nýtingu,“ segir Auður. Spurð að því hvort fyrirtækið hafi tryggt sér orku segir Auður að fyrirtækið hafi nú þegar undirritað viljayfirlýsingar við nokkra raforkusala. „Þetta kemur betur í ljós og við verðum með skýrari svör um bæði orkuþörf, uppsett afl í vetnisvinnslunni og framleidd tonn á ári þegar fýsileikakönnunin liggur fyrir.“
Auður segist fagna því að skipaður hafi verið starfshópur um nýtingu vindorku því hún segir að stjórnvöld þurfi að taka ákvörðun um hvort hér landi eigi að rísa vindorkuver eða ekki. „Þetta snýst svolítið um það á þessu stigi,“ segir Auður og bætir síðar við: „Það er þvílík eftirspurn eftir grænu ammóníaki og það væri lítið mál að selja það en Íslendingar virðast ekki vilja virkja fyrir útflutning, það virðist vera pólitíski tónninn núna.“
Í viðtali við Morgunblaðið sem birt var fyrr í þessum mánuði, sagði Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar að ekki væri til næg raforka á þessum tímapunkti fyrir nýja stóriðju og að fjöldi fyrirtækja væri á höttunum eftir meiri orku. „Og svo er rafeldsneytið að þróast. Við horfum fram á mikla eftirspurn sem við getum ekki mætt nema að hluta,“ sagði Hörður í samtali við Morgunblaðið.
Gætu skapað 30 störf til framtíðar
Að sögn Auðar er hægt að gera ráð fyrir að eitt starf skapist fyrir hver tíu megavött í vetnisvinnslu. Því geti 30 störf skapast til framtíðar ef af verkefninu verður. „Rafgreiningin sjálf er tiltölulega einföld og það eru ekki mörg störf sem fylgja vetnisvinnslunni sjálfri. En þegar við tökum vetni og framleiðum úr því mögulega flugvélaeldsneyti, mögulega metanól á skip þá fylgja því fleiri störf,“ segir Auður.
Það verður ekki hjá því komist að spyrja Auði um hvernig hafi gengið að sækja fjármagn vegna fyrirhugaðrar vetnisframleiðslu. „Það er mikill áhugi að utan en því miður hefur ekki alveg kveiknað á áhuga íslenskra fjárfesta hvað þetta varðar. Fjárfesting í vetni er alveg á milljón úti í Evrópu. Evrópusambandið er að setja hvata á vetnisvinnslu og vetnisinnflutning inn á Evrópusvæðið og peningurinn, hann bara svarar og peningurinn fer af stað.“
Hún segir það leitt að íslenskir fjárfestar hafi ekki sýnt þessu verkefni meiri áhuga. „Ég er vongóð um að það breytist eftir fýsileikakönnun því það er ekki okkar vilji hjá Iðunni að verkefnið sé alfarið fjármagnað erlendis frá. Við viljum hafa íslenskt fé með,“ segir Auður og bætir því við að fyrirtækið ætli að kanna áhuga íslenskra fjárfesta eftir að fýsileikakönnunin liggur fyrir.
Fýsileikakönnun verði tilbúin á síðari hluta ársins
Verkefnið á sér einhvern aðdraganda en Reykjanesbær og Iðunn höfðu skrifað undir aðra viljayfirlýsingu í ágúst í fyrra. Auður var gestur á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar þann 23. júní síðastliðinn en á fundinum hélt hún kynningu á verkefninu. Tveimur vikum síðar, þann 7. júlí, samþykkti bæjarráð að viljayfirlýsing milli Iðunnar og bæjarins, sú sem hér hefur verið til umfjöllunar, skyldi undirrituð.
Í viljayfirlýsingunni segir að drög skuli verða tilbúin að lóðar- og hafnarsamningi sem og framkvæmdalýsing við lok gildistíma viljayfirlýsingarinnar, reynist verkefnið vera fýsilegt. Gildistími viljayfirlýsingarinnar er til loka þessa árs en gert er ráð fyrir að fýsileikakönnunin verði tilbúin á síðari helming ársins.
Að því er segir í viljayfirlýsingunni skal Reykjanesbær, bæði að eigin frumkvæði og að ósk Iðunnar, vinna með viðeigandi stofnunum að framgangi verkefnisins á gildistíma yfirlýsingarinnar.
Iðunn skuldbindur sig til þess að veita Reykjanesbæ upplýsingar og gögn um framkvæmdina svo hægt sé að meta bæði umhverfisleg og félagsleg áhrif hennar. Í viljayfirlýsingunni segir að Iðunn muni skilgreina þær kröfur sem fyrirtækið gerir til lóðarinnar í Helguvík, svo sem kröfur sem snúa að vegum, veitum og aðgengi að höfn. Iðunn mun svo skila hönnunardrögum til bæjarins til upplýsingar um útlit verksmiðjunnar og byggingarmagn.
Með undirritun viljayfirlýsingarinnar skuldbindur Reykjanesbær sig til þess að eiga ekki í viðræðum við þriðja aðila um uppbyggingu á verksmiðju til vetnisframleiðslu á svæðinu án skriflegs samþykkis Iðunnar á gildistíma viljayfirlýsingarinnar. Báðir aðilar hafa möguleika á því að óska eftir framlengingu á gildistímanum sem er líkt og áður segir til loka þessa árs. Þó er tekið fram í viljayfirlýsingunni að miklar tafir geti haft neikvæð áhrif á uppbyggingaráformin.
Hafa hug á útflutningi
Iðunn H2 tók þátt í viðskiptahraðlinum Startup SuperNova um mitt ár í fyrra. Í einblöðungi frá fyrirtækinu sem birtur var samhliða þátttöku þess í hraðlinum sagði að fyrirtækið ynni að þróun vetnisvinnslu í Helguvík. Þar sagði enn fremur að fyrirtækið hefði tryggt sér lóð á besta mögulega stað fyrir vetnisframleiðslu á Íslandi, við stórskipahöfn sem tryggði gott aðgengi að innlendum markaði.
Í einblöðungnum kom einnig fram að fyrirtækið hefði skrifað undir viljayfirlýsingar um orkukaup og ætti í samtölum varðandi orkuflutning og sjálfbæra vatnsveitu. Þar sagði einnig að Ísland væri í einstakri stöðu til útflutnings á vetni til markaða sem þurfa á rafeldsneyti að halda og að slíkur útflutningur gæti jafnvel orðið fjórða útflutningsstoð þjóðarinnar. Sú staða sé tilkomin vegna ríkulegrar framleiðslu á endurnýjanlegri orku í landinu.