Borgarfulltrúar Sósíalistaflokksins lögðu fram tillögur á borgarstjórnarfundi á þriðjudag, þess efnis að vagnstjórar og farþegar fengju fulltrúa í stjórn Strætó. Í dag er stjórn Strætó skipuð kjörnum fulltrúum í sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu, sem eiga Strætó í sameiningu.
Borgarstjórn ákvað að umræðu lokinni að vísa tillögum sósíalista til meðferðar hjá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, en á það var bent af hálfu fulltrúa borgarstjórnarmeirihlutans í umræðum á fundinum í gær að Reykjavíkurborg gæti ein og sér ekki ákveðið að vagnstjórar og farþegar ættu að taka sæti í stjórninni.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokksins stungu einnig upp á því á fundinum að vísa tillögunni beint til stjórnar Strætó, en þá var var á það að Strætó hefði ekki heimild til þess að taka ákvörðun um breytt fyrirkomulag stjórnarinnar. Það þyrftu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu að gera í sameiningu á sínum vettvangi.
„Strætó hefur ekki heimild til að stækka sjálfan sig,“ sagði Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, borgarfulltrúi Viðreisnar. „Það væri nú svolítið kyndugt ef stjórnir gætu bara stækkað sjálfa sig og minnkað,“ sagði borgarfulltrúinn.
Sex vagnstjóra og sex farþega inn í stjórnina
Tillögur Sósíalistaflokksins ganga út frá því að alls sex vagnstjórar setjist í stjórn Strætó og sex fulltrúar farþega einnig. Það yrði þá einn fulltrúi strætófarþega úr hverju sveitarfélagi, til viðbótar við þá sex pólitíkusa sem sitja í stjórn Strætó í dag. Stjórnin myndi þá stækka úr sex manns upp í átján.
Í tillögu Sósíalistaflokksins um vagnstjórana sagði að þrír af sex fulltrúm vagnstjóra ættu að vera fastráðnir starfsmenn Strætó bs., en hinir þrír vagnstjórarnir yrðu starfsmenn þeirra verktaka sem sjá um akstur strætisvagna fyrir Strætó bs. Í tillögunni er bent á að vagnstjórar hafi áður verið hluti af stjórn Strætisvagna Reykjavíkur (SVR) og einnig segir að það „sé eðlilegt og lýðræðislegt að vagnstjórar, sem þekkja leiðirnar best og vita hvernig strætókerfið virkar komi að mótun þess“.
„Vagnstjórar hafa oft bent á hvað þyrfti að laga hjá Strætó. Borið hefur á óánægju með ákvarðanir sem hafa verið teknar án þeirra samráðs. Það myndi bæði bæta þjónustuna og gera starf þeirra betra að hlustað sé á þeirra rödd,“ segir í greinargerð með tillögu sósíalista.
Í tillögu borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins um farþega í stjórn Strætó segir að mikilvægt sé að „rödd strætófarþega komi að daglegri þjónustuveitingu“.
„Eðlilegt er að rödd þeirra sem nota almenningsþjónustu hafi vægi og áhrif á ákvarðanatöku um mótun hennar. Til að auka notkun almenningssamganga þyrfti að laga þjónustuna að þörfum þeirra sem að nota hana, munu nota hana eða vonast er til að noti hana í framtíðinni. Besta leiðin til þess er að þeir sem nú þegar nota hana, og hafa þannig aflað sérþekkingu á annmörkum hennar og styrkleikum, komi að stefnumótun hennar. Þannig verði bestu mögulegu burðum þjónustunnar náð,“ segir í greinargerð með tillögu Sósíalistaflokksins.
Telur að málið verði svæft hjá SSH
Líf Magneudóttir borgarfulltrúi Vinstri grænna kaus gegn því að tillögunni yrði vísað til SSH, þar sem henni fannst málsmeðferðin og sá farvegur sem meirihluti borgarstjórnar kaus að beina málinu í bera þess merki að það ætti að „svæfa málið á vettvangi SSH“.
„Því hver ætlar að taka þessa tillögu sósíalistanna upp, tala fyrir henni og hafa áhrif? Enginn,“ sagði Líf.