Margir kirkjunnar menn í Danmörku telja æskilegt að dregið verði úr því tilstandi sem tilheyrir giftingum nútímans. Kostnaðurinn við að ganga í hjónaband sé komin út yfir öll skynsemismörk. Giftingin eigi ekki að snúast um ytra prjál og glamúr, vera einskonar leiksýning, þar sem tilgangurinn og þær skyldur sem hjónabandið leggur einstaklingum á herðar fellur í skuggann. Kirkjunni beri að bregðast við og reyna að stemma stigu við „óhófsbrúðkaupunum“ eins og danskur prestur komst að orði í viðtali við Kristeligt dagblad.
Kirkja eða ráðhús
Hér í Danmörku fara lang flestar hjónavígslur fram í kirkjum eða ráðhúsum borga og bæja. Hvort kirkjan eða ráðhúsið verður fyrir valinu er oftast spurning um val og afstöðu hjónaefnanna. Þótt margir ímyndi sér að gifting í ráðhúsinu sé íburðarminni og ódýrari en kirkjubrúðkaup er það ekki nærri alltaf tilfellið samkvæmt könnun prófessors við Háskólann í Álaborg.
Í rannsókn hans á giftingum og giftingarundirbúningi kom í ljós að margt ungt fólk veigrar sér við að ganga í hjónaband vegna kostnaðarins sem slíku fylgir. Fjölskylda og vinir vilja fá almennilega veislu, skreytt salarkynni, skemmtikrafta, sérsaumaðan brúðarkjól og kjólföt á brúðgumann. Þrátt fyrir að prestar og annað kirkjunnar fólk hafi árum saman bent á að rétt væri að fara sér hægar og leggja minna uppúr umgjörðinni í kringum hjónavígslurnar hefur það litlu breytt.
Margir, sem áðurnefndur prófessor í Álaborg ræddi við, segja að það sé erfitt að skera sig úr. Fólk haldi þá að annaðhvort séu brúðhjónin svo illa stödd fjárhagslega að þau geti ekki haldið almennilega veislu eða þau séu algjörar nánasir, enginn kæri sig um slíkt. Þess vegna velji mörg pör að kosta miklu til, jafnvel meiru en þau hafi ráð á.
Hér og nú gifting
Í greinaflokki Kristilega Dagblaðsins um giftingar og brúðkaup er sagt frá því að í Borås í Svíþjóð hafi í nokkur ár verið hægt að láta pússa sig saman með hraði. Parið sem vill giftast þarf einungis að framvísa persónuskilríkjum til að hægt sé að framkvæma hjónavígsluna. Þetta hefur að sögn gefist vel og nú hafa nokkrir danskir prestar og biskupinn í Viborg lýst áhuga sínum á því að danskir prestar taki upp þetta fyrirkomulag, til reynslu til að byrja með.
Biskupinn í Viborg sagði að svona „hér og nú“ gifting hljómaði svolítið „poppað“ en ef þetta gæti orðið til þess að draga úr kostnaði, og gerði fleirum kleift að giftast væri það tilraunarinnar virði. Hann sagði að samkvæmt dönskum lögum dygði tæpast að mæta bara með persónuskilríkin í kirkjuna. „Ég á erfitt með að sjá fyrir mér að hér í Danmörku verði þetta eitthvað líkt því sem gerist í Las Vegas. Einhverskonar „drive in“ hjónavígslur,“ sagði biskupinn.
Kirkjan verður að aðlaga sig breyttum tímum
Kirkjusókn í Danmörku hefur á undanförnum árum farið minnkandi, eins og í mörgum öðrum löndum. Ástæðurnar eru sjálfsagt margar og mismunandi. Mörgum finnst kirkjan vera of fjarlæg og prestarnir ekki alltaf tala um það sem máli skiptir. Ein þeirra kirkna þar sem messugestum fór fækkandi ár frá ári er St. Pauls kirkjan í Kaupmannahöfn, skammt frá Jónshúsi.
Fyrir skömmu var ráðinn nýr prestur að kirkjunni, Kathrine Lilleør að nafni. Hún er fastur pistlahöfundur við dagblaðið Berlingske og skrifar þar um menn og málefni. Eftir að hún var ráðin að St. Pauls kirkjunni (sem er jafnframt kirkja Íslendinga í Kaupmannahöfn) ber svo við að kirkjan er nánast troðfull af fólki á hverjum einasta sunnudegi. Í viðtali við eitt dönsku dagblaðanna um síðustu helgi var Lilleør spurð hvernig á því stæði að fólk flykktist í messur hjá henni. „Ætli fólki finnist bara ekki að ég tali um það sem skiptir máli í hinu daglega lífi,“ var svarið.