Nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokks lögðu í gær fram eina þingsályktunartillögu og þrjú lagafrumvörp sem fela í sér umdeildar breytingar á nokkrum málaflokkum. Öll málin hafa áður verið lögð fram en ekki hlotið brautargengi.
Sú fyrsta, sem Bryndís Haraldsdóttir er fyrsti flutningsmaður á, en Vilhjálmur Árnason, Haraldur Benediktsson, Njáll Trausti Friðbertsson og Diljá Mist Einarsdóttir eru líka skrifuð fyrir, fjallar um að samgönguráðherra eigi að fela einkaaðila að fjármagna í heild lagningu Sundabrautar.
Það eigi að gera á grundvelli laga um samvinnuverkefni og samgönguframkvæmdir, sem samþykkt voru í fyrrasumar, og fela í sér heimild til að semja við einkaaðila um fjármögnun framkvæmda, byggingu mannvirkja og veghald. Í greinargerð með tillögunni segir að flutningsmenn hennar telji „afar brýnt að ráðist verði sem fyrst í lagningu Sundabrautar þar sem ástand umferðar á einungis eftir að versna frá því sem nú er og tryggja þarf öryggisleiðir út úr höfuðborginni til austurs og norðurs ef til náttúruhamfara kemur.“
Vilja RÚV burt af auglýsingamarkaði
Óli Björn Kárason er fyrsti flutningsmaður frumvarps til laga sem felur í sér að RÚV hætti þátttöku á auglýsingamarkaði í tveimur skrefum án þess að RÚV yrði bætt upp tekjutapið. Hann lagði einnig fram sama frumvarp í samfloti við Brynjar Níelsson, fyrrverandi þingmann Sjálfstæðisflokksins, á síðasta kjörtímabili en það hlaut ekki brautargengi.
Frumvarpið á, að mati flutningsmanna, að styrkja stöðu einkarekinna fjölmiðla og gera RÚV kleift að einbeita sér að menningarhlutverki sínu.
Það gengur út á að frá byrjun næsta árs og út árið 2023 verði RÚV gert óheimilt að stunda beina sölu á auglýsingum, hlutfall auglýsinga megi ekki fara yfir fimm mínútur á hvern klukkutíma í útsendingartíma, óheimilt verði að slíta í sundur dagskrárliði með auglýsingum og bannað að selja kostun á efni. Þátttöku RÚV á auglýsingamarkaði verði svo hætt í byrjun árs 2024.
Ekki er gert ráð fyrir því að RÚV verði bætt það tekjutap sem fyrirtækið yrði fyrir vegna þessa með öðrum hætti, en tekjur RÚV af samkeppnisrekstri voru 2,2 milljarðar króna árið 2019 og tæplega tveir milljarðar króna í fyrra, þar af voru um 1,6 milljarðar króna vegna auglýsingasölu.
Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram andstaða við það endurgreiðslukerfi á ritstjórnarkostnaði einkarekinna fjölmiðla sem komið var á fót með lögum fyrr á þessu ári. „ Flutningsmenn telja að skynsamlegra sé að styrkja stöðu einkarekinna fjölmiðla með því að takmarka verulega samkeppnisrekstur ríkisins fremur en að koma upp flóknu kerfi millifærslna og ríkisstyrkja. Slíkt stuðlar að auknu heilbrigði á fjölmiðlamarkaði.“
Afnám stimpilgjalda og skattfrjáls heimilishjálp
Vilhjálmur er svo fyrsti flutningsmaður frumvarpi til laga um afnám stimpilgjalda vegna kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði, en einstaklingum ber nú almennt að greiða 0,8 prósent stimpilgjald vegna kaupa á íbúðarhúsnæði en þó er veittur helmingsafsláttur þegar um fyrstu kaup er að ræða. Með honum á frumvarpinu eru Diljá Mist, Njáll Trausti, Óli Björn, Berglind Ósk, Ásmundur og Hildur.
Samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi eru tekjur ríkissjóðs vegna stimpilgjalda áætlaðar 7,1 milljarðar króna á næsta ári. Flutningsmenn frumvarpsins telja að gjaldið hafi áhrif til hækkunar fasteignaverðs, dragi úr framboði og rýri hlut kaupenda og seljenda. „Af framangreindu má ætla að afnám stimpilgjalds af fasteignaviðskiptum muni auðvelda verðmyndun á húsnæðismarkaði með tilheyrandi aukningu á framboði sem hefur verið með minnsta móti undanfarin ár.“
Vilhjálmur er líka fyrsti flutningsmaður frumvarps sem hefur hefur þann tilgang að gera að heimilishjálp frádráttarbæra frá skatti. Til slíkra starfa teljast t.d. hefðbundin heimilisstörf, svo sem þrif og hreingerningar, hefðbundin garðyrkjustörf eða snjómokstur á gangstéttum og í innkeyrslu að heimili. Þegar húsfélag fjöleignarhúss annast greiðslu kostnaðar úr sameiginlegum sjóði vegna slíkra starfa á sameign getur einstaklingur dregið sinn hlut í þeim kostnaði frá tekjuskattsstofni sínum.
Auk hans eru flutningsmenn frumvarpsins Diljá Mist, Óli Björn, Bergling Ósk, Birgir Þórarinsson og Guðrún Hafsteinsdóttir.