Þingmenn Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata munu í dag leggja fram þingsályktunartillögu þess efnis að á þessu ári fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort halda skuli áfram aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið.
Í þingsályktunartillögunni er lagt til að spurningin sem lögð verði fyrir þjóðina verði eftirfarandi, með svarmöguleikunum já eða nei: „Vilt þú að Ísland taki upp þráðinn í viðræðum við Evrópusambandið með það að markmiði að gera aðildarsamning sem borinn yrði undir þjóðina til samþykktar eða synjunar?“
Fram kemur í greinargerð tillögunnar að þingsályktunartillaga af nákvæmlega sama meiði hafi verið lögð fram á 144. löggjafarþingi af þeim Árna Páli Árnasyni, Katrínu Jakobsdóttur, Guðmundi Steingrímssyni og Birgittu Jónsdóttur.
Katrín Jakobsdóttir, þá leiðtogi Vinstri grænna í stjórnarandstöðu en nú forsætisráðherra, mælti fyrir tillögunni er hún var borin fram í mars árið 2015.
Ályktun Alþingis frá 2009 sé enn í fullu gildi
Í greinargerð með tillögunni, sem dreift er á Alþingi í dag, er vísað til þess að í júlí árið 2009 hafi Alþingi ályktað að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu og að loknum viðræðum við sambandið yrði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning.
„Sú þingsályktun er enn í fullu gildi enda hefur hún ekki verið felld úr gildi með annarri ályktun Alþingis,“ segir í greinargerðinni og því er bætt við að tilgangur tillögunnar sé að fylgja eftir þeim vilja Alþingi sem endurspeglist í þingsályktuninni frá árinu 2009.
„Þegar ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins lagði fram tillögu til þingsályktunar um að draga aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka í febrúar 2014 vakti það hörð viðbrögð almennings. Alls skrifuðu 53.555 undir áskorun um að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræðurnar. Þáverandi ríkisstjórn brást ekki við kröfu meira en fimmtungs kosningarbærra manna,“ segir einnig í greinargerðinni.
Fram kemur að það sé „sameiginleg niðurstaða flutningsmanna að þetta mál sé af slíkri stærðargráðu að eðlilegt sé að leita leiðsagnar þjóðarinnar um framhald þess“ og að auk þeirra „mikilvægu röksemda er lúta að efnahagslegum stöðugleika og fjölmörgu öðru, hníga einnig sterk rök að því að Ísland taki afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu vegna nýs veruleika í varnar- og öryggismálum og hlutverks Evrópusambandsins í þeim efnum.“
Þau Logi Einarsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Halldóra Mogensen, Helga Vala Helgadóttir, Dagbjartur Gunnar Lúðvíksson, Andrés Ingi Jónsson, Jóhann Páll Jóhannsson, Guðbrandur Einarsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Kristrún Frostadóttir, Sigmar Guðmundsson, Björn Leví Gunnarsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Eva Sjöfn Helgadóttir, Viktor Stefán Pálsson og Gísli Rafn Ólafsson eru flutningsmenn tillögunnar í þinginu nú, samkvæmt drögum að tillögunni sem Kjarninn hefur undir höndum.