Jóhann Friðrik Friðriksson þingmaður Framsóknarflokksins gerði áfengislögin að umræðuefni undir liðnum störf þingsins á Alþingi í vikunni.
Hann hóf ræðu sína á að segja að eitthvert vinsælasta viðfangsefni á þinginu ár eftir ár sneri að áfengislöggjöfinni í landinu.
„Enginn þarf að velkjast í vafa um þá staðreynd að áfengi er alls ekki eins og hver önnur vara. Heilsufarslegur og samfélagslegur skaði af áfengisneyslu er gríðarlegur og veldur umtalsvert meiri skaða en öll önnur vímuefni, enda eina löglega vímuefnið á markaði,“ sagði hann.
Þá benti þingmaðurinn á að sem betur fer notuðu flestir áfengi í hófi en rannsóknir sýndu að hömlur á aðgengi skiluðu árangri í þeirri viðleitni stjórnvalda að lágmarka óæskileg áhrif á lýðheilsu í landinu.
„Sem dæmi um frumvörp sem snúa að breytingum á áfengislögum og koma upp í hugann má nefna frumvarp um aðkomu sveitarfélaga að staðarvali áfengisverslana, sala áfengis á framleiðslustað, frumvarp um sölu áfengis á sunnudögum og leyfi til sölu áfengis í íslenskum netverslunum. Mér að vitandi liggur ekki lýðheilsumat til grundvallar þessum frumvörpum. Myndi það vera verulega til bóta og mun ég því leggja slíkt til,“ sagði hann.
Margt breyst frá árinu 1998
Jóhann Friðrik sagði jafnframt að hann væri sjálfur hlynntur frelsi með ábyrgð og vildi því taka fram að í áfengislögum segði að tilgangur laganna væri að vinna gegn misnotkun áfengis.
„Lögin eru frá 1998, en frá þeim tíma hefur margt breyst, sér í lagi á sviði forvarna og rannsókna. Ég tel því mikilvægt að farið verði í heildarendurskoðun á áfengislögum með það að markmiði að taka tillit til samkeppnissjónarmiða, misræmis á milli innlendra og erlendra aðila, en fyrst og fremst þeirra sjónarmiða er snúa að forvörnum, áhrifum áfengisneyslu á börn og unglinga og lýðheilsu í landinu,“ sagði hann að lokum.