Arnar Þór Jónsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, vill láta ráðherra úr ríkisstjórn Íslands skipa nefnd til að fara yfir það sem hann telur að hafi farið úrskeiðis í fjölmiðlun á tímum kórónuveirufaraldurs. Þá vill hann einnig að nefndin skoði það sem hann kallar samkrull valdhafa og fjölmiðla á sama tímabili.
Þetta kom fram í ræðu Arnars Þórs á Alþingi í dag í sérstakri umræðu um umhverfi fjölmiðla. Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, var málshefjandi umræðunnar og Lilja Alfreðsdóttir, ráðherra fjölmiðlamála, var til andsvara.
Flestir þátttakendur í umræðunni ræddu um áhyggjur sínar af rekstrarumhverfi fjölmiðla og þær breytingar sem þeir myndu vilja sjá.
Arnar Þór hóf ræðu sína á þeim nótum og sagðist finna samhljóm í umræðunum að dagar Ríkisútvarpsins í þeirri mynd sem það nú er færu að styttast og skapa þannig rými fyrir frjálsa fjölmiðla.
Arnar Þór sagðist í kjölfarið vilja upplýsa um það að á þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins í dag hefði hann lagt til að það yrði lög fram þingsályktunartillaga, sem Arnar Þór býður sig fram til að skrifa, þar sem lagt verður til að ráðherra skipi nefnd „til að fara yfir það sem hér hefur farið úrskeiðis í fjölmiðlun og samkrulli valdhafa og fjölmiðla á síðustu tveimur árum“.
Í ræðu sinni sagði Arnar Þór að þetta vildi hann gera þetta þar sem hann teldi að ákveðnir veikleikar í grunnstoðum lýðveldisins hefðu afhjúpast, og átti þar við þá stoð sem fjölmiðlar væru.