Samkeppniseftirlitið ætti að athuga samkeppnisumhverfið í íslenska bankakerfinu, í ljósi mikillar arðsemi þeirra og fákeppnisumhverfis. Þetta skrifar Gylfi Zoega, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, í grein sinni í nýjasta tölublaði Vísbendingar, sem kom út í dag.
Fákeppni skekkir eignadreifingu
Samkvæmt Gylfa er fákeppni í flestum atvinnugreinum á Íslandi, vegna smæðar hagkerfisins og fyrirkomulags gengismála. Af þeirri fákeppni skapast renta sem eykur ráðstöfunartekjur þeirra sem ráða yfir fákeppnisfyrirtækjunum og skekkir smám saman dreifingu eigna.
Bankakerfið er dæmi um slíka fákeppni, en Gylfi segir að þar geti bankarnir farið sínu fram og aukið eigin arðsemi með ógagnsæjum verðskrám og ósamhverfum upplýsingum um gjaldskrár og vaxtamun án þess að viðskiptavinir þeirra geti rönd við reist.
Í því samhengi nefnir Gylfi greiðslumiðlun, en samkvæmt honum skiptir miklu máli fyrir lífskjör Íslendinga að til sé ódýr innlend leið til að miðla greiðslum. Til þess að svo megi verða segir hann að stjórnvöld þurfi þá að koma slíkri greiðslumiðlun á fót eða ákvarða hvaða verð fjármálafyrirtæki megi rukka fyrir hana. Reynist það ómögulegt ætti að hafa beint eftirlit með miðluninni líkt og tíðkast í öðrum löndum.
Mikill hagnaður en hvað græða viðskiptavinir?
Gylfi segir einnig að mikill hagnaður bankanna í fyrra veki athygli, sem hefði verið mun minni ef ríkisstjórnin hefði ekki styrkt fyrirtæki í ferðaþjónustu og tengdum greinum. „En þá er varla sjálfsagt að eigendur bankanna haldi veislu í lok farsóttar með arðgreiðslum vegna góðs gengis á tímum þegar samfélagið var lamað,“ bætir hann við.
Á sama tíma og arðsemi bankanna hefur verið mikil hafa þeir einnig lækkað rekstrarkostnað sinn með því að skera niður í starfsemi útibúanna sinna. „En hvar liggur ábatinn af minni kostnaði bankanna? Hefur vaxtamunur verið minnkaður eða þjónustugjöld lækuð,“ spyr Gylfi og bætir svo við: „Full ástæða er fyrir Samkeppniseftirlit að rannsaka hegðun bankanna eins og eftirlitið fór ofan í saumana á rekstri olíufélaganna fyrir nokkrum árum.“
Hægt er að lesa grein Gylfa í heild sinni með því að gerast áskrifandi að Vísbendingu.