Unnið er að því í fjármála- og efnahagsráðuneytinu að kanna réttarstöðu íslenska ríkisins vegna Al Thani dómsins til hlítar. Auk þess er verið að kanna hvort endurskoða þurfi ákveðna þætti löggjafar um fjármálafyrirtæki sem eru til ummfjöllunar í forsendum dóms Hæstaréttar. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um hvort einhver formleg vinna væri hafin í ráðuneytinu við að kanna mögulega bótakröfu á hendur slitabúi Kaupþings í kjölfar dómsins.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, svaraði fyrirspurn Guðmundar Steingrímssonar, formanns Bjartrar framtíðar, um viðbrögð ríkisins við Al Thani dómnum á Alþingi í gær. Þar sagði Bjarni meðal annars það vera áleitna spurningu „hvort með þeim saknæma hætti sem Hæstiréttur hefur nú fjallað um hafi stjórnvöldum verið gefið viðbótartilefni til að koma bankanum til bjargar sem gæti aftur leitt af sér mögulega bótakröfu ríkisins á hendur slitabúinu. Það er eitthvað sem ég held að við ættum að taka til skoðunar".
Seðlabankinn kanni grundvöll fyrir skaðabótamáli
Kjarninn beindi í kjölfarið spurningu til ráðuneytisins um hvort vinna við könnun á möguleikum formlegrar bótakröfu væri hafin innan þess. Í svari ráðuneytisins segir að í tilefni af dómsuppkvaðningu Hæstaréttar í Al Thani málinu hafi fjármála- og efnahagsráðherra kynnt fyrir ríkisstjórn í dag að hann „hyggst beina því til Seðlabanka Íslands að bankinn kanni grundvöll fyrir höfðun skaðabótamáls vegna þess tjóns sem Seðlabanki Íslands varð fyrir í tengslum við fall Kaupþings banka hf. og leiða má af því að lánafyrirgreiðsla Seðlabanka Íslands við Kaupþing banka hf. hafi veirð byggð á villandi og röngum upplýsingum um stöðu Kaupþings banka hf.“
Samkvæmt svörum frá Seðlabankanum hefur lögmönnum hans verið falið að skoða málið.
Kjarninn greindi frá því í byrjun október 2014 að tap íslenskra skattgreiðenda vegna þessarar lánveitingar sé áætlað um 35 milljarðar króna.
Umrædd lánafyrirgreiðsla var þrautavararlán sem Seðlabankinn veitti Kaupþingi 6. október 2008, sama dag og neyðarlög voru sett á Íslandi. Lánið var upp á 500 milljónir evra, um 75 milljarðar króna á núvirði. Fyrir láninu var tekið veð í danska FIH-bankanum sem reyndist mun verðminna en upphaflega var haldið fram. Kjarninn greindi frá því í byrjun október 2014 að tap íslenskra skattgreiðenda vegna þessarar lánveitingar sé áætlað um 35 milljarðar króna.
Í svari ráðuneytisins segir einnið að unnið sé „að því innan fjármála- og efnahagsráðuneytisins að kanna til hlítar réttarstöðu ríkisins að öðru leyti í tengslum við þetta mál og hvort endurskoða þurfi ákveðna þætti löggjafar um fjármálafyrirtæki sem til umfjöllunar eru í forsendum dóms Hæstaréttar.“
Ófyrirleitni og skeytingarleysi
Dómur Hæstaréttar í Al Thani málinu þykir marka tímamót í íslenskri réttarsögu. Þar voru Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, og Ólafur Ólafsson, einn stærsti hluthafi Kaupþings, voru sakfelldir fyrir aðild sína að Al-Thani málinu svokallaða. Hreiðar Már fékk fimm og hálfs árs fangelsi, Sigurður fjögur ár, Ólafur og Magnús fjögur og hálft ár.
Í dómi Hæstaréttar um ákvörðun refsingar segir meðal annars: „Háttsemi ákærðu samkvæmt þessum köflum ákæru fól í sér alvarlegt trúnaðarbrot gagnvart stóru almenningshlutafélagi og leiddi til stórfellds fjártjóns. Brotin samkvæmt III. og IV. kafla ákæru beindust í senn að öllum almenningi og fjármálamarkaðinum hér á landi í heild og verður tjónið, sem leiddi af þeim beint og óbeint, ekki metið til fjár. Þessi brot voru stórum alvarlegri en nokkur dæmi verða fundin um í íslenskri dómaframkvæmd varðandi efnahagsbrot.
[...]
Kjarninn í háttsemi ákærðu fólst í þeim brotum, sem III. kafli ákærunnar snýr að, en þau voru þaulskipulögð, drýgð af einbeittum ásetningi og eindæma ófyrirleitni og skeytingarleysi. Öll voru brotin framin í samverknaði og beindust að mikilvægum hagsmunum. Verður og að líta til þess að af broti samkvæmt III. kafla ákæru hafði ákærði Ólafur óbeina fjárhagslega hagsmuni gegnum félag, sem eins og fyrr greinir var næst stærsti hluthafinn í Kaupþingi banka hf. Ákærðu, sem ekki hafa sætt refsingu fyrr, eiga sér engar málsbætur.“