Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur lagt fram formlega fyrirspurn til fjármálaráðherra um hvernig endurgreiðsluupphæðir vegna verkefnisins „Allir vinna“ árin 2021 skiptust eftir sveitarfélögum, lögaðilum, einstaklingum og tekjutíundum. Auk þess spurði hún hvort meintur ávinningur ríkissjóðs vegna átaksins, sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar sagði vera „óyggjandi“, hefði verið metinn. Fyrirspurnina má finna á vef Alþingis.
„Allir vinna“- átakið felur í sér endurgreiðslu á virðisaukaskatt vegna ýmiss konar iðnaðarvinnu, þar á meðal byggingar og viðhald húsnæðis og bílaviðgerðir. Átakinu var fyrst hrundið af stað í kjölfar fjármálahrunsins frá 2010 til 2015, en það var svo komið aftur á árið 2020, þegar búist var við hruni í byggingariðnaðinum vegna heimsfaraldursins.
Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu hafði átakið kostað ríkissjóð 16,5 milljarða króna við síðustu árslok. Alþingi samþykkti svo á milli jóla og nýárs að átakið yrði framlengt í takmarkaðri mynd í ár, í kjölfar beiðni um slíkt frá Samtökum iðnaðarins. Fjármálaráðuneytið hafði hins vegar mælt gegn slíkri framlengingu í minnisblaði sem það sendi til efnahags- og viðskiptanefndar þingsins, en þar stóð að hún fæli í sér innspýtingu á fjármagni í hagkerfi sem sé nú þegar þanið.
Guðrún Hafsteinsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður nefndarinnar, varði ákvörðun hennar um að mæla með framlengingu úrræðisins með þeim rökum að enn væri til staðar slaki í byggingariðnaði. Enn fremur sagði hún að það væri „óyggjandi“ að átakið myndi skila sér í ávinningi fyrir ríkissjóð vegna minni svartrar atvinnustarfsemi.