Jeremy Corbyn, frambjóðandi til formanns breska Verkamannaflokksins, segist ætla að biðjast opinberlega afsökunar á Íraksstríðinu fyrir hönd flokksins, ef hann nær kjöri. Hann vill biðja bresku þjóðina afsökunar á "blekkingum" sem hafi verið beitt í aðdraganda innrásarinnar árið 2003 og vill biðja írösku þjóðina afsökuna á afleiðingunum og þjáningum þeirra í kjölfar hennar.
Tólf ár eru frá því að Bretar tóku þátt í innrásinni í Írak með Bandaríkjamönnum. Verkamannaflokkurinn var þá í ríkisstjórn undir forystu Tony Blair, sem hefur ítrekað komið sér hjá því að biðjast afsökunar á þætti Breta. Þátttakan í stríðinu er enn mjög viðkvæm innan Verkamannaflokksins.
"Sem flokkur vorum við í þeirri leiðu stöðu að standa með einni verstu hægristjórn í bandarískri sögu," segir Corbyn. Hann segir stríðið hafa verið rangt í eðli sínu og það hafi verið mistök af skelfilegri stærðargráðu.
Corbyn segir í skriflegri yfirlýsingu til breska blaðsins Guardian að hann vilji fækka hernaðarlegum inngripum Breta í framtíðinni. "Segjum að við munum aldrei framar setja hermenn okkar í hættu að óþörfu eða setja stöðu landsins í heiminum í hættu. Gerum það ljóst að Verkamannaflokkurinn mun aldrei gera sömu mistökin aftur, mun aldrei framan virða Sameinuðu þjóðirnar og alþjóðalög að vettugi."
Með afsökunarbeiðninni vill Corbyn hjálpa til við að vinna aftur hylli fólks sem yfirgaf flokkinn vegna málsins. Corbyn sjálfur greiddi atkvæði gegn innrásinni á sínum tíma og hefur alltaf staðið við andstöðu sína.
Rannsókn á þætti Breta tafist um mörg ár
Sex ár eru frá því að ákveðið var að rannsaka þátt Breta í innrásinni, en enn hafa engar niðurstöður verið kynntar. Chilcot-rannsóknin svokallaða er undir vaxandi þrýstingi og nú er talið líklegt að stjórnvöld muni setja rannsóknarnefndinni tímamörk og krefjist þess að hún skili af sér á næsta ári. Búist er við því að Blair og aðrir ráðamenn þessa tíma verði harðlega gagnrýndir.
Eins og áður kom fram hefur Blair aldrei beðist afsökunar á innrásinni í Írak, en þegar hann kom fyrir Chilcot-nefndina árið 2011 sagðist hann harma mannfallið sem orðið hefði. Ed Miliband, sem síðar varð formaður Verkamannaflokksins, hefur ekki heldur beðist afsökunar fyrir hönd flokksins en sagði árið 2010 að það hafi verið rangt að fara í stríð.