Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, lagði fram fyrirspurn til Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, á Alþingi í dag um áætlaðan kostnað við framkvæmd og kynningu á skuldaniðurfærslu verðtryggðra fasgeignaveðlána, eða „Leiðréttingarinnar“ svokölluðu.
Í fyrirspurninni er óskað eftir sundurliðun á öllum kostnaði við skudaniðurfærsluna sem ekki er veitt til framteljenda sjálfra, og hversu stór hluti kostnaðarins er vegna kynningar og almannatengsla í tengslum við niðurfærsluna.
Blésu til sýningar
Niðurstaða „Leiðréttingarinnar“ var kynnt á viðhafnarfundi í Hörpu mánudaginn 10. nóvember síðastliðinn. Hægt var að fylgjast með fundinum í beinni útsendingu á vefnum, en almannatengslafyrirtækið KOM kom að framkvæmd kynningarinnar. Á henni héldu Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra tölu áður en Halldór Benjamín Þorbergsson, hagfræðingur, sem starfar sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Icelandair Group, stýrði hálftíma langri kynningu á skuldaniðurfærslunni.
Halldór Benjamín var fenginn til að útbúa og stýra kynningunni fyrir tilstuðlan Tryggva Þórs Herbertssonar, verkefnastjórna „Leiðréttingarinnar.“ Þeir störfuðu á árum áður saman innan Milestone- samsteypunnar þar sem Tryggvi Þór var forstjóri fjárfestingabankans Askar Capital um stutt skeið og Halldór Benjamín var verkefnastjóri hjá Milestone.