Þórdís Lóa Þórhallsdóttir oddviti Viðreisnar í Reykjavík segir alveg skýrt að flokkurinn sé í bandalagi með Pírötum og Samfylkingunni hvað varðar meirihlutaviðræður í kjölfar borgarstjórnarkosninganna sem fram fóru um síðustu helgi og að flokkurinn ætli ekki að leita annað.
Í færslu á Facebook segir Þórdís Lóa að auk þess að hafa starfað með flokkunum undanfarin fjögur ár sé bandalagið augljós kostur þegar málefnaáherslur Viðreisnar í kosningabáráttunni séu skoðaðar, sérstaklega hvað varðar skipulags-, samgöngu- og loftslagsmál.
Þetta verði helstu og mikilvægustu viðfangsefni næstu fjögurra ára og mikilvægt sé að vanda þar til verka. Viðreisn vilji láta á bandalagið reyna með því að hefja formlegar meirihlutaviræður með Framsóknarflokknum, sem hafi einnig sett Samgöngusáttmála og uppbyggingu íbúða á oddinn. „Með þessum fjórum flokkum næðist starfhæfur og öflugur meirihluti að okkar mati.“