Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að tímabært sé að endurskoða lög um gjaldeyrismál í nýju frumvarpi sínu, sem er nú á borði efnahags- og viðskiptanefndar. Nýju lögin ættu að endurspegla betur viðtekin viðhorf í málaflokknum, þar sem aukinn hljómgrunnur er nú fyrir að takmarka gjaldeyrisflæði milli landa í ákveðnum tilvikum, sérstaklega hjá smærri opnum hagkerfum.
Meira frelsi ekki alltaf betra
Samkvæmt frumvarpinu hefur skapast aukin samstaða á alþjóðavettvangi um að algerlega óheftu fjármagnsflæði milli landa geti fylgt veruleg áhætta, enda væri það reynsla margra smærri opinna hagkerfa í aðdraganda og kjölfar fjármálahrunsins 2008. Þetta væri fráhvarf frá því viðhorfi sem væri almennt ríkjandi fyrir alþjóðlegu fjármálakreppuna, þar sem almennt var talið að frjálsræði fylgdi eingöngu ávinningur.
„Í hagkerfum eins og því íslenska, þar sem markaðir eru grunnir og fjárfestingarkostir tiltölulega fábreyttir, er innstreymi líklegra til að hafa meiri áhrif og kynda undir meiri óstöðugleika en annars staðar,“ segir í greinargerð frumvarpsins. „Vegna smæðar hagkerfis geta því tiltölulega lágar fjárhæðir í samhengi alþjóðlegra fjármagnsviðskipta vegið þungt og haft mikil áhrif, meðal annars á eignaverð og gengi. Miklu innstreymi fjármagns fylgir einnig hætta á snörpum viðsnúningi með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika.
Efast um algjörlega frjálst flæði sjálfstæðrar krónu
Einnig minnist Bjarni á að hin hefðbundna sýn á val stjórnvalda í gjaldeyris- og peningamálum sé dregin í efa. Talið var að stjórnvöld gætu valið tvennt af eftirtöldu: frjálst flæði fjármagns, sjálfstæða peningastefnu og handstýrt gengi. „Hins vegar eru efasemdir um hvort sjálfstæð peningastefna geti átt samleið með algerlega frjálsu og óheftur flæði fjármagns, án varúðartækja,“ segir í greinargerðinni. „Eiga þær efasemdir ekki síst við um hagkerfi eins og það íslenska sem ekki eru ráðandi fyrir þróun fjárhagslegra skilyrða á alþjóðavísu.“
Engar grundvallarbreytingar
Frumvarpið var samið af starfshópi sem Bjarni skipaði í september 2019. Samkvæmt greinargerðinni ættu engar grundvallarbeytingar að eiga sér stað í lögum um gjaldeyrismál með innleiðingu frumvarpsins, en gengið er út frá því að sömu stjórntæki verði til staðar og nú er. Lagabreytingarnar ættu einungis að vera til einföldunar og stuðla að bættri framkvæmd þeirra.
Engar umsagnir borist
Efnahags- og viðskiptanefnd, sem hefur frumvarpið á sínu borði, hefur beðið 12 stofnanir og samtök um umsögn um frumvarpið. Þeirra á meðal eru Alþýðusamband Íslands, Samtök atvinnulífsins, Seðlabankinn og Neytendasamtökin. Engin umsögn hefur borist, en skilafrestur þeirra rennur út í dag.