Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins skorar á Birgi Ármannsson forseta Alþingis til að hlutast til um það að „grjóthnullungurinn“ – listaverkið Svarta keilan – sem er fyrir utan Alþingishúsið verði fjarlægður.
Frá þessu greindi hann í ræðu á Alþingi í dag en hann hefur áður viðrað þessa skoðun sína á þingi.
Þingmaðurinn rifjaði upp að í janúar árið 2012 hefði verið komið fyrir risastórum „grjóthnullungi“ fyrir utan Alþingishúsið sem kallaður var Svarta keilan og átti að vera minnisvarði um borgaralega óhlýðni eftir listamanninn Santiago Sierra.
Listamaðurinn vildi minna á mikilvægi borgaralegra réttinda í lýðræðissamfélagi
Verkið var fyrst staðsett á Austurvelli en fljótlega fært á horn Kirkjustrætis og Thorvaldsensstrætis. Á vef Listasafns Reykjavíkur segir að verkið samanstandi af 180 sm háum steini sem hefur verið klofinn í tvennt með svartri keilu sem situr eftir í sprungunni.
„Keilan vísar til svartra keilulaga hatta sem spænski rannsóknarrétturinn lét sakfellda menn bera í háðungarskyni á 12. öld. Með verkinu vill listamaðurinn minna á mikilvægi borgaralegra réttinda í lýðræðissamfélagi og þann rétt þegnanna að neita því að hlýðnast óréttlátum lögum og kröfum yfirvalda.
Á minnisvarðanum er plata sem á er letruð á íslensku og ensku setning úr Yfirlýsingu um réttindi manna og borgara sem birtist sem formáli að stjórnarskránni sem franska þingið samþykkti árið 1793: „Þegar ríkisstjórn brýtur á rétti þegnanna, þá er uppreisn helgasti réttur og ófrávíkjanlegasta skylda þegnanna sem og hvers hluta þjóðarinnar.“ Verkið var fyrst sett upp á Austurvelli í janúar 2012 í tengslum við yfirlitssýningu á heimildarkvikmyndum og myndböndum Santiagos Sierra í Hafnarhúsi,“ segir á vef Listasafnsins.
Að sýningunni lokinni bauð listamaðurinn Reykjavíkurborg minnisvarðann að gjöf og það þáði borgarstjórn.
„Staðsetning verksins við alþingishúsið og Austurvöll er vel við hæfi því að alþingishúsið er helsta tákn lýðræðis á Íslandi og Austurvöllur er staðurinn þar sem almennir borgarar koma saman til að mótmæla þegar þeim þykir ríkisvaldið beita þá órétti. Verkið tengist umhverfinu einnig í efnisvali því að steinninn er grágrýti eins og alþingishúsið sjálft og stöpullinn undir styttu Jóns Sigurðssonar,“ segir enn fremur á vef Listasafnsins.
Vonast til þess að þingmenn komi að „grjóthreinsuðum Austurvelli“ í haust
Bergþór sagði í ræðu sinni að forsætisnefnd hefði alla tíð verið skynsamlega þenkjandi í þessu máli án þess að ná fram því markmiði að hreinsa Austurvöll af „þessari óværu“.
Hann hvatti forseta Alþingis að horfa til þess að nýta sumarið til að taka til framan við Alþingishúsið, að eiga samtal, annaðhvort sjálfur eða fá embættismönnum það verkefni, við Reykjavíkurborg þar sem fundinn yrði flötur á því að fjarlægja „þetta svokallaða listaverk“ sem væri „hreinasta hörmung“ í augum býsna margra.
„Það er eitthvað sérstaklega ónotalegt við það að minnisvarði um borgaralega óhlýðni sé beint fyrir framan löggjafarsamkundu þjóðarinnar.“
Hann sagðist að endingu vonast til þess að þingmenn kæmu að „grjóthreinsuðum Austurvelli“ í haust.