Nauðsynlegt er að aðilar á vinnumarkaðnum vinnu svo að verðbólgan valdi ekki skaða og krefjist ekki meiri fórna í framtíðinni í formi hærri vaxta. Þetta segir Gylfi Zoega, sem er hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands og situr í peningastefnunefnd Seðlabankans, í grein sinni í nýjasta tölublaði Vísbendingar.
Samkvæmt Gylfa er kreppunni sem fylgdi COVID-19 heimsfaraldrinum lokið hér á landi, þar sem atvinnuleysi er orðið það sama og það var í ársbyrjun árið 2020. Töpuð störf vegna farsóttarinnar séu að fullu endurheimt þrátt fyrir að ferðaþjónustan hafi ekki enn náð fyrri styrk, en aðrar greinar hafi fyllt í skarðið eins og gerist í markaðshagkerfum.
Verðbólgan vegna lægri vaxta og hærri launa
Samhliða betri efnahagshorfum hafa verðbólguhorfur hins vegar versnað. Gylfi segir verðbólguna einkum stafa af aukinni eftirspurn innanlands og að erlendar verðhækkanir á hrávörum ekki hafa eins mikil áhrif hér og í öðrum Evrópulöndum. Stærstu liðir í hækkun neysluverðsvísitölunnar séu húsnæðisliðurinn og almenn þjónusta, en Gylfi telur þá báða endurspegla innlendar launahækkanir.
Gylfi bætir þó við að hækkun fasteignaverðs megi rekja til ýmissa þátta en segir samt að aukning í kaupmætti launa á síðustu tveimur árum hafi aukið eftirspurn eftir húsnæði. Sömuleiðis segir hann að vaxtalækkanir Seðlabankans hafi haft mikil áhrif, þar sem eftirspurn eykst á húsnæðismarkaði þegar vextir á íbúðalánum lækka.
Hins vegar telur Gylfi það ekki vera rétt að fullu að segja að húsnæðisverð sé hátt vegna skorts á framboði á fasteignamarkaðnum. Hann segir verðhækkanirnar eiga að leiða framboðsaukningar, þar sem meira verður byggt vegna þess að fasteignaframkvæmdir eru orðnar arðbærari.
Samkvæmt honum er spurning hvort peningastefnan hafi örvað hagkerfið of mikið á tímum COVID-19, hér á landi sem annars staðar. En jafnvel þótt svo hefði verið þá segir Gylfi að henni hafi tekist að minnka áhrif farsóttarinnar á lífskjör og atvinnu.
Hægt að bæta lífskjör á annan hátt en með krónuhækkunum
„Horfurnar eru bjartar fyrir þetta ár með væntum hagvexti og bættum lífskjörum,“ segir Gylfi í greininni sinni. „En helsta markmið hagstjórnar verður að vera að halda verðbólgu í skefjum til þess að hún valdi ekki skaða og krefjist ekki meiri fórna í framtíðinni,“ bætir hann við.
Til þess að ná þessu markmiði segir Gylfi að mikilvægt sé að skapa gott samspil á milli Seðlabankans, ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins. Einnig segir hann að hafa þurfi í huga að unnt sé að bæta lífskjör á „margvíslegan annan hátt en með hækkun krónulauna.“
Hægt er að lesa grein Gylfa í heild sinni með því að gerast áskrifandi að Vísbendingu.