Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata benti á undir liðnum störf þingsins á Alþingi í vikunni að ekki væri hægt að mótmæla fyrir framan sendiráð hér á landi án þess að eiga það á hættu að vera vísað í burtu af lögreglu eða jafnvel vera handtekinn.
Hún hóf mál sitt á því að beina athyglinni að samstöðumótmælum með borgurunum í Úkraínu fyrir utan sendiráð Rússlands. „Við höfum fylgst með af ákveðinni aðdáun, að minnsta kosti sú sem hér stendur, hvernig mótmælendur í Rússlandi mótmæla stríðinu í Úkraínu þrátt fyrir að eiga vissa yfir höfði sér handtöku fyrir að lýsa skoðunum sínum, fyrir að mótmæla,“ sagði hún.
„Ímyndum okkur hins vegar að þessir mótmælendur sem stóðu fyrir framan rússneska sendiráðið hefðu fengið þau fyrirmæli frá lögreglu að færa sig í burtu, færa mótmælin annað, þau væru fyrir, rússneska sendiherranum þætti þetta óþægilegt og hann vildi helst að þau myndu bara fara.
Og þegar mótmælendur hefðu ekki brugðist vel við, þ.e. hefðu bara ekki farið, þá hefði lögreglan handtekið alla þessa mótmælendur fyrir að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu um að gjöra svo vel að fara og hætta að trufla rússneska sendiherrann,“ sagði hún.
Maður handtekinn í tvígang fyrir að færa sig ekki
Benti Þorhildur Sunna á að þetta væri hægt á Íslandi í dag. „Þetta hefur einn maður raunar upplifað fyrir framan annað sendiráð í tvígang. Það var hins vegar ekki rússneska sendiráðið heldur það bandaríska þar sem einn maður stóð með skilti og var að mótmæla stríðsrekstri Bandaríkjamanna. Hann var beðinn um að færa sig þrátt fyrir að valda engum ama nema kannski einhverjum sjónrænum ama fyrir sendiherra Bandaríkjanna. Og þegar hann færði sig ekki var handtekinn og var að lokum dæmdur fyrir að hafa ekki hlýtt fyrirmælum lögreglu um að færa sig. Þetta hefur gerst í tvígang nýlega á Íslandi. Þetta er gallinn við 19. gr. lögreglulaga. Hann brýtur á rétti fólks til friðsamlegra mótmæla.“
Í þessari grein sem Þórhildur Sunna vísar til segir að almenningi sé „skylt að hlýða fyrirmælum sem lögreglan gefur, svo sem vegna umferðarstjórnar eða til þess að halda uppi lögum og reglu á almannafæri“.
Í ræðu sinni sagðist þingmaðurinn vera með í vinnslu mál sem tekur á þessu og hvatti Þórhildur Sunna alla þingmenn til að tryggja að fólk fengi áfram að mótmæla fyrir framan sendiráð án truflana lögreglu.