Villa eiturlyfjabarónsins Tony Montana, úr kvikmyndinni Scarface frá árinu 1983, í leikstjórn Brian De Palma, er til sölu fyrir 17,8 milljónir Bandaríkjadala, eða röska 2,3 milljarða íslenskra króna. Fréttamiðillinn Business Insider greinir frá málinu.
Húsið, sem er tæplega þúsund fermetrar að flatarmáli, er búið fjórum svefnherbergjum og níu baðherbergjum, og er umvafið persnerskum garði með ótal gosbrunnum. Eignin hefur verið auglýst til sölu í á annað ár, en upphaflegi verðmiðinn hljóðaði upp á 35 milljónir Bandaríkjadala, eða tæpa 4,6 milljarða króna. Lokaatriði Scarface þar sem Montana stráfellir byssumenn í tugatali áður en hann fellur í mikilli kúlnahríð átti til að mynda að eiga sér stað í húsinu.
Glæpamaðurinn Tony Montana bjó vel, það verður ekki af honum tekið. MYND: Village Properties
Aðdáendur Scarface vita auðvitað mæta vel að Kúbverjinn Tony Montana, sem Al Pacino lék svo óaðfinnanlega, byggði upp eiturlyfjaveldi sitt í Miami í Florida ríki á austurströnd Bandaríkjanna. Villan sem var notuð við gerð kvikmyndarinnar sem heimili Montana, og er nú föl fyrir 2,3 milljarða króna, er hins vegar staðsett á vesturströnd Bandaríkjanna, nánar tiltekið í Montecito í Kalifórníu, um 145 kílómetra vestur af Los Angeles.
Eignin hefur gengið í gegnum endurbætur frá því að sagan um Scarface var kvikmynduð og ku jafnvel enn glæsilegri í dag en árið 1983. Hægt er að skoða myndir af villunni í umfjöllun Business Insider hér.