Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra var fyrstur til að skrá sig í miðlægan grunn um líffæragjafa þegar hann opnaði formlega í dag sérstakt vefsvæði sem Embætti landlæknis hefur sett á fót í þessu skyni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu. „Fólk er hvatt til að taka afstöðu og lýsa vilja sínum í þessum efnum,“ segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.
Fram til þessa hefur fólk sem er reiðubúið að gefa líffæri, ef á reynir, þurft að fylla út sérstakt líffæragjafakort og ganga með það á sér. Að öðru leyti hafa upplýsingar um líffæragjafa hvergi verið skráðar og engar tölulegar upplýsingar eru til hér á landi um fjölda þeirra.
Vefsvæðið má nálgast gegnum hnapp á vef Embættis landlæknis, www.landlaeknir.is. Þar eru margvíslegar upplýsingar sem tengjast líffæragjöf, settar fram á aðgengilegan hátt sem spurningar og svör. Til að lýsa afstöðu sinni til líffæragjafar þarf fólk að opna sérstakt svæði á vefnum og auðkenna sig með Íslykli eða rafrænu skilríki, segir í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu.