Almennt atvinnuleysi minnkaði um rúmt prósentustig milli mánaða í maí og mældist 9,1 prósent, samkvæmt nýbirtri mánaðarskýrslu Vinnumálastofnunar um vinnumarkaðinn á Íslandi.
Betri tölur en búist var við
Atvinnuleysistölurnar eru umfram spár stofnunarinnar, sem gerði ráð fyrir 9,2 til 9,8 prósenta atvinnuleysi í síðustu mánaðarskýrslunni sinni. Samkvæmt henni er viðbúist að atvinnuleysið lækki nú á vormánuðum og í byrjun sumars, meðal annars vegna sérstakra atvinnuátaka stjórnvalda og vegna árstíðarsveiflu á vinnumarkaði.
Í næsta mánuði er því gert ráð fyrir að atvinnuleysið lækki enn frekar og verði á bilinu 7,3 prósent til 7,8 prósent.
Atvinnulausum fækkaði um 2.380 milli apríl- og maímánaðar. Samkvæmt fréttatilkynningu frá félagsmálaráðuneytinu er þetta mesta fækkun atvinnulausra á milli mánaða frá því að mælingar Vinnumálastofnunar hófust um aldamótin.
Svipað og í lok fyrrasumars
Hægt er að sjá breytingu í atvinnuleysi og fjölda atvinnulausra á mynd hér að neðan. Samkvæmt henni var staðan á vinnumarkaði í síðasta mánuði sambærileg stöðunni í september í fyrra.
Þó er atvinnuleysið enn töluvert hærra en það var áður en faraldurinn skall á, en rúmlega helmingi færri voru atvinnulausir í janúar í fyrra.
Misskipt eftir kyni og landshlutum
Eftir sem áður er mikill munur á atvinnuleysistölum á milli landshluta, til að mynda mælist atvinnuleysið undir fimm prósentum á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi Vestra og á Austurlandi. Á Norðurlandi eystra var atvinnuleysið svo rúm sex prósent, sem er litlu hærra en það var áður en faraldurinn skall á í fyrra.
Á Suðurnesjum er staðan hins vegar langverst, en þar eru um 18,7 prósent vinnumarkaðarins atvinnulaus. Hins vegar hefur það lækkað töluvert frá ársbyrjun, en var um fjórði hver íbúi á vinnumarkaði atvinnulaus.
Í öllum landshlutum nema á höfuðborgarsvæðinu er heildaratvinnuleysi á meðal kvenna meira en á meðal karla. Munurinn er mestur á Suðurnesjum, en þar eru 23,1 prósent kvenna atvinnulaus, miðað við 17,4 prósent karla.