Vinstri græn í Reykjavík eru þeirrar skoðunar að það sé „tilraunarinnar virði“ hjá borginni að setja á fót tilnefningarnefnd, sem skipa á fulltrúa borgarinnar í stjórnir fyrirtækja sem borgin á hlut í, en segjast þó telja að með aðferðafræðinni sem beitt sé gæti skapast meiri fjarlægð við þá stefnumörkun og skyldur sem stjórnmálamenn eru kjörnir til að sinna, sem skapað gæti þrýsting á aukna einkavæðingu grunnþjónustuverkefna.
Borgarráð Reykjavíkur samþykkti á fimmtudag skipan tilnefningarnefndar, en í henni sitja borgarfulltrúarnir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir oddviti Viðreisnar sem jafnframt verður formaður nefndarinnar, Einar Þorsteinsson oddviti Framsóknar og sjálfstæðiskonurnar Hildur Björnsdóttir og Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir. Einnig á Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sæti í nefndinni, en borgarstjóri fer með eigendafyrirsvar fyrir hönd borgarinnar.
Ný eigendastefna borgarinnar, sem unnin var á síðasta kjörtímabili, hefur meðal annars þær breytingar í för með sér að skylda verður fyrir borgina að tilnefna ákveðið hlutfall óháðra stjórnarmanna í stjórnir fyrirtækja sem borgin á. Þegar stjórnarmenn eru fimm talsins skulu að minnsta kosti tveir teljast óháðir borginni og ekki koma úr röðum kjörinna fulltrúa eða starfsmanna hennar. Ef stjórnarmenn eru sjö eiga þrír stjórnarmenn að teljast óháðir borginni.
Fjallað var um drög að nýju eigendastefnunni á Innherja á Vísi í vor og þar haft eftir Þórdísi Lóu oddvita Viðreisnar að verið væri að „minnka pólitík í stjórnum fyrirtækjanna og innleiða meiri fagmennsku“.
Vinstri græn, sem sátu í meirihluta borgarstjórnar á síðasta kjörtímabili, virðast hins vegar vera með efasemdir um útfærsluna sem spratt af vinnu stýrihóps um nýja eigendastefnu borgarinnar. Flokkurinn átti þó fulltrúa í þeirri vinnu, en Líf Magneudóttir borgarfulltrúi sat fyrir hönd flokksins í stýrihópnum sem vann að gerð eigendastefnunnar.
Íris Andrésdóttir varaborgarfulltrúi sat borgarráðsfundinn á fimmtudag sem áheyrnarfulltrúi fyrir hönd flokksins og lét bóka í fundargerð að það væri skoðun Vinstri grænna „að félög í eigu Reykjavíkurborgar og verkefni þeirra eigi að lúta pólitískri stefnu og að framfylgd hennar og eftirlit sé á ábyrgð kjörinna fulltrúa.“
„Pólitískt kjörnir fulltrúar eru aldrei undanþegnir því að vera faglegir og vandaðir í störfum sínum en með þessari aðferðafræði sem hér er beitt gæti skapast meiri fjarlægð við þá stefnumörkun og skyldur sem stjórnmálamenn eru kjörnir til að sinna. Slíkt gæti skapað þrýsting á aukna einkavæðingu verkefna sem sannarlega eru grunnþjónusta. Það eru áhyggjuefni fyrir íbúa Reykjavíkur og leggjast Vinstri græn alfarið gegn þeirri þróun,“ sagði í bókun áheyrnarfulltrúans í borgarráði.