Vinstri græn mælast nú með meira fylgi en hreyfingin fékk í alþingiskosningunum í lok september og myndu fá 12,9 prósent atkvæða, samkvæmt nýrri skoðanakönnun frá Maskínu sem birt var í dag. Þetta er í fyrsta sinn frá því að ný ríkisstjórn var mynduð sem Vinstri græn mælast yfir kjörfylgi, en í könnun sem Maskína framkvæmdi í desembermánuði mældist flokkurinn með 8,9 prósent og hefur því bætt við sig fjórum prósentustigum síðan þá.
Samfylkingin mælist þriðji stærsti flokkur landsins og er með 13,4 prósent fylgi, samkvæmt könnuninni, en flokkurinn fékk 9,9 prósent fylgi í kosningunum í september.
Tveir stærstu flokkarnir, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, eru á svipuðum slóðum og í síðustu könnunum, en Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig og mælist nú með 21,9 prósent fylgi og Framsókn 16,9 prósent. Báðir mælast flokkarnir undir kjörfylgi sínu frá því í september.
Píratar dala um rúm þrjú prósent
Fylgi stjórnmálaflokka á landsvísu er að mestu nokkuð stöðugt á milli mánaða. Mesta sveiflan á er þó hjá Pírötum, sem mælast nú með 10,3 prósent fylgi, sem er samdráttur um 3,2 prósentustig frá könnun Maskínu í janúarmánuði.
Aðrir flokkar eru innan við tíu prósentin. Viðreisn bætir aðeins við sig fylgi frá síðustu könnun og mælist nú með 9,7 prósent fylgi. Flokkur fólksins dalar hins vegar ögn og mælist nú með 7,6 prósent fylgi.
Miðflokkurinn og Sósíalistaflokkurinn mælast svo með 3,9 og 3,5 prósent fylgi, sem er nær alveg það sama og í síðustu könnun Maskínu. Sósíalistaflokkurinn mældist með 7,5 prósent fylgi í könnun Maskínu í desember, en fylgi við flokkinn hefur rúmlega helmingast síðan.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá. Hún var lögð fyrir á netinu. Svarendur voru alls staðar af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri.
Svör voru vegin samkvæmt mannfjöldatölum Hagstofunnar. Könnunin fór fram dagana 28. janúar til 16. febrúar 2022 og tóku 3.039 svarendur afstöðu til flokks.