Markaðsvirði þeirra hlutabréfa í Kauphöll Íslands sem veðsett eru með beinum hætti hefur lækkað ansi skarpt á síðustu mánuðum. Í lok marsmánaðar var það tæplega 294 milljarðar króna og hafði þá aldrei verið hærra frá því að hlutabréfamarkaðurinn var endurreistur eftir bankahrun. Í lok júní var það hins vegar komið niður í um 252 milljarða króna. Virði veðsettra bréfa hafði því lækkað um rúma 42 milljarða króna á þremur mánuðum, eða 14,3 prósent.
Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Nasdaq Iceland, sem rekur íslensku Kauphöllina.
Nasdaq Iceland birtir ársfjórðungslega upplýsingar um heildarveðsetningu á þeim hlutabréfum sem skráð eru á mörkuðum Nasdaq Iceland og eru jafnframt rafrænt skráðir hjá Nasdaq verðbréfamiðstöð. Nánar tiltekið er um að ræða upplýsingar um meðalveðsetningu allra félaga á hlutabréfamörkuðum Nasdaq Iceland, Aðalmarkaði og Nasdaq First North, reiknað út frá vægi hvers og eins félags.
Upplýsingar um veðsetningu geta veitt ákveðnar vísbendingar um umfang skuldsetningar á hlutabréfamarkaði, það er hversu mikið fjárfestar hafa fengið að láni til að kaupa í skráðum félögum. Gögnin sýna hins vegar einungis beina veðsetningu, en taka ekki tillit til þess að lánveitandi geti verið með veð í öllum eignum lántakanda, þar með talið hlutabréfum, né innihalda þau upplýsingar um óbeinar veðtökur með gerð framvirkra samninga.
Í ljósi þess að umtalsverðir hlutir í skráðum félögum eru skráðir á fjármálafyrirtæki vegna þess að gerðir hafa verið framvirkir samningar við viðskiptavini sem eru í reynd þeir sem taka áhættu af viðskiptunum, liggur fyrir að veðsetning hlutabréfa er í heild mun meiri en tölur Nasdaq Iceland gefa til kynna.
Mikil veðsetning á árunum fyrir hrun
Veðsetning hlutabréfa var mjög algeng á árunum fyrir hrun, og bjó meðal annars til mikla kerfislega áhættu hérlendis. Stór fjárfestingarfélög, sem áttu meðal annars stóra hluti í bönkum, fengu þá lánaðar háar fjárhæðir með veði í bréfum, til að kaupa önnur hlutabréf. Þegar eitthvað súrnaði varð keðjuverkun vegna krosseignarhalds.
Tekið hefur verið fyrir þessa hegðun með lagabreytingum á undanförnum árum.
Bólumerki
Hlutabréfaverð hækkaði skarpt á meðan að kórónuveirufaraldurinn geisaði af fullum krafti. Á árinu 2020 hækkaði úrvalsvísitala Kauphallar Íslands, sem mælir þróun á virði bréfa þeirra tíu félaga sem eru með mestan seljanleika hverju sinni, um 20,5 prósent og heildarvísitala hlutabréfa um 24,3 prósent.
Í fyrra gekk enn betur. Bréf í öllum félögum á aðalmarkaði, og öllu nema einu á First North, hækkuðu. Alls hækkaði úrvalsvísitalan um 33 prósent og heildarvísitala hlutabréfa um 40,2 prósent. Þau tvö félög sem hækkuðu mest í virði, Arion banki og Eimskip, tvöfölduðu markaðsvirði sitt.
Samhliða þessu jókst markaðsvirði veðsettra hlutabréfa mikið. Frá marsmánuði 2020 og fram til síðustu áramóta jókst það um rúmlega 107 milljarða króna, eða 65 prósent, og var 273 milljarðar króna. Vert er að taka fram að nýskráningar áttu sér stað í millitíðinni sem útskýrir hluta hækkunarinnar.
Hækkunin var drifin áfram af ódýru lánsfé og auknum sparnaði landsmanna, en ekki undirliggjandi frammistöðu félaganna á markaði. Því bar hún öll merki bólu. Margir bjuggust því við leiðréttingu á virði skráðra hlutabréfa.
Mikil lækkun það sem af er ári
Á þessu tímabili lækkaði hlutfall beinnar veðtöku mikið og var 10,67 prósent í lok árs í fyrra. Það hafði ekki verið lægra síðan á miðju ári 2017.
Það sem af er þessu ári hefur úrvalsvísitalan hins vegar lækkað hratt, eða um 21,2 prósent. Kjarninn greindi frá því í byrjun síðasta mánaðar að hún hefði lækkað um 10,9 prósent í maímánuði einum saman. Það er mesta lækkun innan mánaðar síðan í maí 2010, eða í tólf ár. Lækkun á virði bréfa í Marel, langverðmætasta skráða félagsins á íslenskum hlutabréfamarkaði, hefur leitt þessa þróun.
Þrátt fyrir að lækkunarhrinan væri hafin á fyrstu mánuðum ársins 2022, og heildarmarkaðsvirði hlutabréfa dróst samhliða saman, jókst virði veðsettra hlutabréfa frá áramótum og út marsmánuð um 21 milljarð króna.
Síðan þá hefur heildarvirði þeirra hlutabréfa sem veðsett eru með beinum hætti hins vegar dregist skarpt saman, eða um 42 milljarða króna og hlutfall beinnar veðtöku að sama skapi hækkað upp í 13,2 prósent af markaðsvirði bréfa.