Mynd: Reitir kauphöllbrún.png
Mynd: Reitir

Mesta lækkun innan mánaðar í Kauphöllinni í tólf ár – 243 milljarðar hurfu til peningahimna

Úrvalsvísitalan lækkaði um 10,9 prósent í síðasta mánuði. Það er mesta lækkun innan mánaðar síðan í maí 2010. Fall á virði bréfa í Marel, sem hafa lækkað um meira en 200 milljarða króna frá áramótum, eru ráðandi breyta í samdrættinum.

Heild­ar­mark­aðsvirði skráðra félaga í Kaup­höll Íslands var 2.198 millj­arðar króna í lok maí. Í nýliðnum mán­uði lækk­aði mark­aðsvirði þeirra um alls 243 millj­arða króna, eða um tíu pró­sent. Úrvals­vísi­talan, sem mælir gengi þeirra tíu skráðu félaga sem eru með mestan selj­an­leika, lækk­aði um 10,9 pró­sent. Þetta er mesta lækkun sem orðið hefur innan mán­aðar á úrvals­vísi­töl­unni síðan í maí 2010, þegar hún lækk­aði um 11,5 pró­sent.

Frá ára­mótum hefur heild­ar­virði þeirra 25 félaga sem skráð eru á aðal­markað og First North lækkað um 358 millj­arða króna. 

Þetta má lesa út úr við­skipta­yf­ir­liti Nas­daq Iceland, sem rekur íslensku Kaup­höll­ina, sem birt var í gær. 

Stór­auk­inn sölu­hagn­aður hluta­bréfa í fyrra

Sú mikla dýfa sem íslenskur hluta­bréfa­mark­aður er að ganga í gegnum kemur í kjöl­far mik­ils upp­gangs á þeim tveimur árum sem komu á und­an.

Á árinu 2020 hækk­aði úrvals­vísi­talan um 20,5 pró­sent og heild­ar­vísi­tala hluta­bréfa um 24,3 pró­sent. Mark­aðsvirði þeirra 23 félaga sem skráð voru á mark­að­ina tvo á því ári hækk­aði um 312 millj­arða króna á því ári, eða um 24 pró­sent. Í fyrra gekk enn bet­ur. Bréf í öllum félögum á aðal­mark­aði, og öllu nema einu á First North, hækk­uðu. Alls hækk­aði úrvals­vísi­talan um 33 pró­sent og heild­ar­vísi­tala hluta­bréfa um 40,2 pró­sent. Þau tvö félög sem hækk­uðu mest í virði, Arion banki og Eim­skip, tvö­föld­uðu mark­aðsvirði sitt. 

Á árinu 2021 voru hluta­bréf fjög­urra félaga tekin til við­skipta í Kaup­höll. Síld­ar­vinnslan og Íslands­banki voru skráð á aðal­markað og PLAY og Solid Clouds á First North. Skrán­ing þeirra spil­aði rullu, ásamt miklum hækk­unum á virði ann­arra félaga, í því að mark­aðsvirði skráðra bréfa hækk­aði um næstum þús­und millj­arða króna í fyrra og var 2.556 millj­arðar króna um síð­ustu ára­mót. 

Í tölum um álagn­ingu opin­berra gjalda á ein­stak­linga sem birtar voru í vik­unni sjást afleið­ingar þessa. Þar kom fram að fjár­magnstekjur ein­stak­linga hafi verið 181 millj­arður króna í fyrra. Þær juk­ust um 65 millj­arða króna í fyrra, eða um 57 pró­sent. Þessi aukn­ing var fyrst og síð­ast drifin áfram af sölu­hagn­aði hluta­bréfa, sem var 69,5 millj­arðar króna. 

Árið 2020 var hann hann 25,2 millj­arðar króna og því jókst hagn­aður af ein­stak­linga sölu hluta­bréfa um 44,3 millj­arða króna milli ára, eða um 176 pró­sent.

Marel langstærsta breytan í lækk­un­ar­hrin­unni

Lang­flest skráð félög hafa lækkað í virði það sem af er ári. Mest hefur Mar­el, stærsta félagið í Kaup­höll­inni sem er um fjórð­ungur af heild­ar­virði henn­ar, lækkað en mark­aðsvirði þess var 663,5 millj­arðar króna um síð­ustu ára­mót. Í lok maí var það komið niður í 455,5 millj­arða króna, sem þýðir að 208 millj­arðar króna hafa horfið af mark­aðsvirði Marel á fimm mán­uð­um, eða 31 pró­sent af heild­ar­virði hluta­bréfa þess. Alls er 58 pró­sent af lækkun á heild­ar­virði allra skráðra félaga það sem af er ári vegna lækk­unar á bréfum í Mar­el.

Árni Oddur Þórðarson er forstjóri Marel.
Mynd: Skjáskot

Þessi lækkun hafði meðal ann­ars umtals­verð áhrif á upp­gjör Lands­bank­ans fyrir fyrsta árs­fjórð­ung árs­ins, en bank­inn á 14,1 pró­sent í Eyri Invest, stærsta eig­anda Mar­el. Arð­semi eig­in­fjár bank­ans var ein­ungis 4,7 pró­sent á fjórð­ungn­um, sem er vel undir tíu pró­senta arð­sem­is­mark­miði hans og langt frá þeirri 11,7 pró­sent arð­semi eig­in­fjár sem var hjá Lands­bank­anum á fyrsta árs­fjórð­ungi 2021. 

Önnur félög á aðal­mark­aði sem hafa lækkað skarpt það sem af er ári eru Iceland Seafood (niður um 36 pró­sent), Kvika banki (niður um 26,1 pró­sent) og Sýn (niður um 21,4 pró­sent). Á First North hefur PLAY lækkað um 22,4 pró­sent en sú lækkun var nær öll í maí­mán­uði. Gengi bréfa í flug­fé­lag­inu er nú komið niður í útboðs­geng­i. 

Þótt Play sé búið að hefja sig til flugs í bókstaflegum skilningi þá hefur gengið á markaði ekki verið eins og vonast var til, enda taprekstur félagsins til þessa umtalsverður.
Mynd: PLAY

Fast­eigna­fé­lögin þrjú: Eik (14,4 pró­sent), Reitir (12,4 pró­sent) og Reg­inn (6,8 pró­sent) hafa öll hækkað í verði á árinu, en lækk­uðu öll skarpt í maí­mán­uð­i. 

Það félag sem sker sig úr þegar kemur að hækk­unum það sem af er ári er þó Brim, en virði hluta­bréfa þess hefur auk­ist um 24,7 pró­sent á síð­ustu fimm mán­uðum og um 66,3 pró­sent á einu ári. Heild­ar­mark­aðsvirði þess er nú 182,5 millj­arðar króna og hefur auk­ist um 30 millj­arða króna frá ára­mót­u­m. 

Tvö ný félög skráð á næstu dögum

Sú dýfa sem er að eiga sér stað á mörk­uðum hefur þó ekki gert ný félög frá­hverf því að skrá sig á mark­að. Í gær var greint frá því að Ölgerðin hafi fengið tæp­lega sjö þús­und nýja hlut­hafa eftir hluta­fjár­út­boð í lok maí þar sem 29,5 pró­sent af heild­ar­hlutafé félags­ins var selt fyrir 7,9 millj­arða króna. Miðað við það er heild­ar­virði Ölgerð­ar­innar 26,8 millj­arðar króna, en fjór­föld eft­ir­spurn var í útboð­inu. Við­skipti með hluta­bréf félags­ins hefj­ast fimmtu­dag­inn 9. jún­í. 

Í gær greindi Nova frá því hluta­fjár­út­boð, þar sem 37,1 til 44,5 pró­sent af hlutafé félags­ins verður selt, muni hefj­ast á föstu­dag, 3. júní, og standa yfir í eina viku. Í kjöl­farið verða bréfin skráð á markað og ráð­gert er að fyrsti dagur við­skipta með þau verði 21. júní næst­kom­andi.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar