Mynd: Reitir kauphöllbrún.png
Mynd: Reitir

Mesta lækkun innan mánaðar í Kauphöllinni í tólf ár – 243 milljarðar hurfu til peningahimna

Úrvalsvísitalan lækkaði um 10,9 prósent í síðasta mánuði. Það er mesta lækkun innan mánaðar síðan í maí 2010. Fall á virði bréfa í Marel, sem hafa lækkað um meira en 200 milljarða króna frá áramótum, eru ráðandi breyta í samdrættinum.

Heild­ar­mark­aðsvirði skráðra félaga í Kaup­höll Íslands var 2.198 millj­arðar króna í lok maí. Í nýliðnum mán­uði lækk­aði mark­aðsvirði þeirra um alls 243 millj­arða króna, eða um tíu pró­sent. Úrvals­vísi­talan, sem mælir gengi þeirra tíu skráðu félaga sem eru með mestan selj­an­leika, lækk­aði um 10,9 pró­sent. Þetta er mesta lækkun sem orðið hefur innan mán­aðar á úrvals­vísi­töl­unni síðan í maí 2010, þegar hún lækk­aði um 11,5 pró­sent.

Frá ára­mótum hefur heild­ar­virði þeirra 25 félaga sem skráð eru á aðal­markað og First North lækkað um 358 millj­arða króna. 

Þetta má lesa út úr við­skipta­yf­ir­liti Nas­daq Iceland, sem rekur íslensku Kaup­höll­ina, sem birt var í gær. 

Stór­auk­inn sölu­hagn­aður hluta­bréfa í fyrra

Sú mikla dýfa sem íslenskur hluta­bréfa­mark­aður er að ganga í gegnum kemur í kjöl­far mik­ils upp­gangs á þeim tveimur árum sem komu á und­an.

Á árinu 2020 hækk­aði úrvals­vísi­talan um 20,5 pró­sent og heild­ar­vísi­tala hluta­bréfa um 24,3 pró­sent. Mark­aðsvirði þeirra 23 félaga sem skráð voru á mark­að­ina tvo á því ári hækk­aði um 312 millj­arða króna á því ári, eða um 24 pró­sent. Í fyrra gekk enn bet­ur. Bréf í öllum félögum á aðal­mark­aði, og öllu nema einu á First North, hækk­uðu. Alls hækk­aði úrvals­vísi­talan um 33 pró­sent og heild­ar­vísi­tala hluta­bréfa um 40,2 pró­sent. Þau tvö félög sem hækk­uðu mest í virði, Arion banki og Eim­skip, tvö­föld­uðu mark­aðsvirði sitt. 

Á árinu 2021 voru hluta­bréf fjög­urra félaga tekin til við­skipta í Kaup­höll. Síld­ar­vinnslan og Íslands­banki voru skráð á aðal­markað og PLAY og Solid Clouds á First North. Skrán­ing þeirra spil­aði rullu, ásamt miklum hækk­unum á virði ann­arra félaga, í því að mark­aðsvirði skráðra bréfa hækk­aði um næstum þús­und millj­arða króna í fyrra og var 2.556 millj­arðar króna um síð­ustu ára­mót. 

Í tölum um álagn­ingu opin­berra gjalda á ein­stak­linga sem birtar voru í vik­unni sjást afleið­ingar þessa. Þar kom fram að fjár­magnstekjur ein­stak­linga hafi verið 181 millj­arður króna í fyrra. Þær juk­ust um 65 millj­arða króna í fyrra, eða um 57 pró­sent. Þessi aukn­ing var fyrst og síð­ast drifin áfram af sölu­hagn­aði hluta­bréfa, sem var 69,5 millj­arðar króna. 

Árið 2020 var hann hann 25,2 millj­arðar króna og því jókst hagn­aður af ein­stak­linga sölu hluta­bréfa um 44,3 millj­arða króna milli ára, eða um 176 pró­sent.

Marel langstærsta breytan í lækk­un­ar­hrin­unni

Lang­flest skráð félög hafa lækkað í virði það sem af er ári. Mest hefur Mar­el, stærsta félagið í Kaup­höll­inni sem er um fjórð­ungur af heild­ar­virði henn­ar, lækkað en mark­aðsvirði þess var 663,5 millj­arðar króna um síð­ustu ára­mót. Í lok maí var það komið niður í 455,5 millj­arða króna, sem þýðir að 208 millj­arðar króna hafa horfið af mark­aðsvirði Marel á fimm mán­uð­um, eða 31 pró­sent af heild­ar­virði hluta­bréfa þess. Alls er 58 pró­sent af lækkun á heild­ar­virði allra skráðra félaga það sem af er ári vegna lækk­unar á bréfum í Mar­el.

Árni Oddur Þórðarson er forstjóri Marel.
Mynd: Skjáskot

Þessi lækkun hafði meðal ann­ars umtals­verð áhrif á upp­gjör Lands­bank­ans fyrir fyrsta árs­fjórð­ung árs­ins, en bank­inn á 14,1 pró­sent í Eyri Invest, stærsta eig­anda Mar­el. Arð­semi eig­in­fjár bank­ans var ein­ungis 4,7 pró­sent á fjórð­ungn­um, sem er vel undir tíu pró­senta arð­sem­is­mark­miði hans og langt frá þeirri 11,7 pró­sent arð­semi eig­in­fjár sem var hjá Lands­bank­anum á fyrsta árs­fjórð­ungi 2021. 

Önnur félög á aðal­mark­aði sem hafa lækkað skarpt það sem af er ári eru Iceland Seafood (niður um 36 pró­sent), Kvika banki (niður um 26,1 pró­sent) og Sýn (niður um 21,4 pró­sent). Á First North hefur PLAY lækkað um 22,4 pró­sent en sú lækkun var nær öll í maí­mán­uði. Gengi bréfa í flug­fé­lag­inu er nú komið niður í útboðs­geng­i. 

Þótt Play sé búið að hefja sig til flugs í bókstaflegum skilningi þá hefur gengið á markaði ekki verið eins og vonast var til, enda taprekstur félagsins til þessa umtalsverður.
Mynd: PLAY

Fast­eigna­fé­lögin þrjú: Eik (14,4 pró­sent), Reitir (12,4 pró­sent) og Reg­inn (6,8 pró­sent) hafa öll hækkað í verði á árinu, en lækk­uðu öll skarpt í maí­mán­uð­i. 

Það félag sem sker sig úr þegar kemur að hækk­unum það sem af er ári er þó Brim, en virði hluta­bréfa þess hefur auk­ist um 24,7 pró­sent á síð­ustu fimm mán­uðum og um 66,3 pró­sent á einu ári. Heild­ar­mark­aðsvirði þess er nú 182,5 millj­arðar króna og hefur auk­ist um 30 millj­arða króna frá ára­mót­u­m. 

Tvö ný félög skráð á næstu dögum

Sú dýfa sem er að eiga sér stað á mörk­uðum hefur þó ekki gert ný félög frá­hverf því að skrá sig á mark­að. Í gær var greint frá því að Ölgerðin hafi fengið tæp­lega sjö þús­und nýja hlut­hafa eftir hluta­fjár­út­boð í lok maí þar sem 29,5 pró­sent af heild­ar­hlutafé félags­ins var selt fyrir 7,9 millj­arða króna. Miðað við það er heild­ar­virði Ölgerð­ar­innar 26,8 millj­arðar króna, en fjór­föld eft­ir­spurn var í útboð­inu. Við­skipti með hluta­bréf félags­ins hefj­ast fimmtu­dag­inn 9. jún­í. 

Í gær greindi Nova frá því hluta­fjár­út­boð, þar sem 37,1 til 44,5 pró­sent af hlutafé félags­ins verður selt, muni hefj­ast á föstu­dag, 3. júní, og standa yfir í eina viku. Í kjöl­farið verða bréfin skráð á markað og ráð­gert er að fyrsti dagur við­skipta með þau verði 21. júní næst­kom­andi.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar