Mynd: Bára Huld Beck

„Allir vinna“ … en aðallega byggingarverktakar og tekjuhæstu Íslendingarnir

Byggingafyrirtæki fengu rúmlega þriðjung allra endurgreiðslna vegna „Allir vinna“. Alls fóru 4,1 milljarður króna af endurgreiðslum til einstaklinga og húsfélaga til þeirra tíu prósent landsmanna sem voru með mesta tekjur. Það er rúmlega helmingur allra endurgreiðslna til einstaklinga og húsfélaga.

Íslenska ríkið greiddi alls 15 millj­arða króna í end­ur­greiðslur vegna „Allir vinna“-átakið á árunum 2020 og 2021. Þar sem umsókn­ar­frestur fyrir end­ur­greiðslur er sex ár, og töl­urnar miða við stöðu afgreiddra umsókna 15. febr­úar síð­ast­lið­inn, býst fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neytið við því að end­ur­greiðslu­fjár­hæðin muni hækka og áætlar að sú hækkun geti numið alls um þremur millj­örðum króna. Að teknu til­liti til þess er áætl­aður þegar til­fall­inn heild­ar­kostn­aður vegna átaks­ins 18 millj­arðar króna. Þá er ótalið að úrræðið var fram­lengt við fjár­laga­vinnu síð­asta árs og er enn í gildi. Kostn­aður rík­is­sjóðs vegna þess á því enn eftir að aukast.

„Allir vinna“ átakið felur í sér end­ur­greiðslu á 100 pró­sent af virð­is­auka­skatti vegna ýmiss konar iðn­­að­­ar­vinnu, aðal­lega vegna nýbygg­ingar og við­hald hús­næðis en meg­in­þorri end­ur­greiðslu­upp­hæð­ar­innar fellur undir þann flokk. Átakið var hluti af efna­hags­að­gerð­ar­pakka sem rík­is­stjórnin kynnti í upp­hafi kór­ónu­veiru­far­ald­urs­ins og felur í sér að end­ur­greiðslur voru hækk­aðar úr 60 í 100 pró­sent í sumum til­vikum og í öðrum voru þær látnar ná yfir þjón­ustu sem það náði ekki yfir áður­.  

Sam­kvæmt svari fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra við fyr­ir­spurn þing­manns Sam­fylk­ing­ar­innar um „Allir vinna“ fór stærstur hluti end­ur­greiðsln­anna vegna átaks­ins á árunum 2020 og 2021 til bygg­inga­fyr­ir­tækja, eða 5,6 millj­arðar króna. Það er rúm­lega þriðj­ungur allra þegar útgreiddra end­ur­greiðslna. 

Ráðu­neytið vildi úrræðið burt og sagði það þenslu­hvetj­andi

Til stóð að lækka þessar end­ur­greiðslur úr 100 í 60 pró­sent sam­kvæmt fjár­laga­frum­varpi árs­ins 2022. Sam­tök iðn­að­ar­ins, sem gæta meðal ann­ars hags­muna bygg­inga­fyr­ir­tækja, lögð­ust gegn þess­ari lækkun og fóru fram á að átakið yrði fram­lengt í eitt ár til að takast á við það sem þau köll­uðu slaka í bygg­ing­ar­iðn­aði, þrátt fyrir að tæp­lega þús­und fleiri hafi starf­aði í geir­anum í fyrra­haust en fyrir kór­ónu­veiru­far­ald­ur. 

Hækkun á endurgreiðslum undir hatti „Allir vinna“ var hluti af efnahagspakka ríkisstjórnarinnar sem kynntur var stuttu eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á.
Mynd: Bára Huld Beck

Við þing­lega með­ferð máls­ins skil­aði skatta­skrif­stofa fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neyt­is­ins af sér minn­is­blaði þar sem hún mælti með því að fallið yrði að öllu leyti frá 100 pró­sent end­ur­greiðslu á virð­is­auka­skatti. Meðal ann­­ars var vísað til þess að um væri að ræða inn­­­spýt­ingu fjár­­­magns í þegar þanið hag­­kerfi – en hag­­spár bæði Seðla­­banka og Hag­­stof­unnar gera ráð fyrir því að fram­­leiðslu­­spenna mynd­ist í þjóð­­ar­­bú­inu á þessu ári. 

Auk þess benti fjár­­­mála­ráðu­­neytið á að búist væri við vexti í íbúða­fjár­­­fest­ingu. „Þessar spár benda ekki til að þörf sé fyrir sér­­stakan skatta­hvata í bygg­ing­­ar­­starf­­semi. Varð­andi end­­ur­bætur og við­hald íbúð­­ar­hús­næðis þá bendir fátt til verk­efna­skorts. Sú hæfni sem þarf til þeirra verk­efna nýt­ist einnig við bygg­ingu nýs íbúð­­ar­hús­næð­­is. [...] Auk þess bendir margt til þess að umfram­eft­ir­­spurn sé eftir iðn­­að­­ar­­mönnum og myndi áfram­hald­andi skatta­hvati fremur við­halda því ójafn­­vægi en draga úr því.“

Efna­hags- og við­skipta­nefnd, undir for­mennsku Guð­rúnar Haf­steins­dóttur úr Sjálf­stæð­is­flokki, sem er fyrr­ver­andi for­maður Sam­taka iðn­að­ar­ins, ákvað hins vegar að mæl­ast til þess að úrræðið fyrir starf­­semi tengdri bygg­ing­­ar­fram­­kvæmdum og við­haldi hús­næðis yrði fram­­lengt að fullu út ágúst í ári og frá 1. sept­­em­ber muni end­­ur­greiðslan mið­­ast við 60 pró­­sent af því sem ætti ann­­ars að fara til rík­­is­­sjóðs sem virð­is­auka­skatt­­ur. 

Það var sam­þykkt.

Óskaði eftir sund­ur­liðun

Kristrún Frosta­dótt­ir, þing­­maður Sam­­fylk­ing­­ar, sem gagn­rýndi ráð­­stöf­un­ina og skort á rök­­semda­­færslu fyrir fram­­leng­ingu úrræð­is­ins harð­­lega í minn­i­hluta­á­liti sínu úr fjár­­laga­­nefnd, beindi í jan­úar fyr­ir­­spurn til fjár­­­mála- og efna­hags­ráð­herra og óskaði eftir upp­­lýs­ingum um hvernig end­­ur­greiðslur vegna „Allir vinna“ skipt­ust eftir sveit­­ar­­fé­lög­um, lög­­að­il­um, ein­stak­l­ingum og tekju­­tí­und­­um. 

Guðrún Hafsteinsdóttir beitti sér fyrir því að „Allir vinna“ átakið yrði framlengt. Kristrún Frostadóttir gagnrýndi þá ákvörðun harðlega.
Mynd: Bára Huld Beck

Svar barst í gær, rúmum fjórum mán­uðum eftir að fyr­ir­spurnin var lögð fram. Þar kemur fram að heild­ar­kostn­aður vegna end­ur­greiðslu á árunum 2020 og 2021, og fram til 15. febr­úar 2022, var rúm­lega 15 millj­arðar króna. Þar af fóru 4,5 millj­arðar króna til ein­stak­linga, 2,7 millj­arðar króna til hús­fé­laga, leigu­fé­laga eða félaga­sam­taka, 1,9 millj­arðar króna til sveit­ar­fé­laga og 298 millj­ónir króna til almanna­heilla­fé­laga. Stærsta upp­hæð­in, alls 5,6 millj­arðar króna, fór hins veg­ar, líkt og áður sagði, til bygg­inga­fyr­ir­tækja. 

Búist er við því að þrír millj­arðar króna bæt­ist við í end­ur­greiðslur vegna tíma­bils­ins þar sem hægt er að sækja um þær í allt að sex ár eftir að verkið er unn­ið. Auk þess er átakið enn í fullu gildi og því mun heild­ar­talan vegna end­ur­greiðslna hækka umtals­vert til við­bót­ar.

Rúmur helm­ingur af greiðslum til ein­stak­linga til efstu tekju­tí­undar

Kristrún óskaði einnig eftir því að end­ur­greiðslur til ein­stak­linga sem nýttu sér úrræðið yrðu sund­ur­lið­aðar eftir tekju­tí­und­un­um. 

Sam­kvæmt svari ráðu­neyt­is­ins voru end­ur­greiðslur vegna íbúð­ar­hús­næðis í mörgum til­fellum ekki greiddar beint til ein­stak­linga heldur til hús­fé­laga. „Gögn um þá ein­stak­linga sem eiga aðild að hús­fé­lögum sem fá slíka end­ur­greiðslu eru ekki í gagna­grunni Skatts­ins um end­ur­greiðsl­urn­ar. Af þeim sökum gefur tekju­tí­unda­dreif­ingin aðeins mynd af dreif­ingu þeirra end­ur­greiðslna sem ein­stak­lingar sóttu sjálfir um. Hún nær ekki til end­ur­greiðslna sem nýtt­ust ein­stak­lingum vegna íbúð­ar­hús­næðis í eigu þeirra í þeim til­vikum þegar hús­fé­lög standa fyrir við­kom­andi fram­kvæmdum í fjöl­býl­is­hús­um. Sam­kvæmt gögnum Skatts­ins námu end­ur­greiðslur til hús­fé­laga vegna end­ur­bóta og við­halds íbúð­ar­hús­næðis 1.639 millj. kr. árið 2020. Þar sem það sam­svarar um tveimur þriðju hlutum af greiðsl­unum sem heim­færðar eru á ein­stak­linga er ljóst að dreif­ing þeirra eftir tekju­tí­undum sem hér er sett fram gefur að öllum lík­indum ekki rétta mynd.“

Í þeirri sund­ur­liðun ráðu­neytið birtir um skipt­ingu milli tekju­tí­unda segir að greiðslur til ein­stak­linga og hús­fé­laga sem eru fram­tals­skyld hér­lendis hafi verið tæp­lega 7,6 millj­arðar króna. Þar af hafi 4,1 millj­arður króna farið til efstu tekju­tí­und­ar, þeirra 24.026 fjöl­skyldna sem höfðu hæstu tekj­urnar árið 2020. Lægstu heild­ar­tekjur þeirra á því ári voru 18,1 milljón króna, eða um 1,5 millj­ónir króna á mán­uði. Það þýðir að tekju­hæstu tíu pró­sent heim­ila í land­inu fékk um 54 pró­sent af end­ur­greiðsl­unum sem fóru til heim­ila. Næst tekju­hæsta tíundin fékk 1,4 millj­arða króna og sú þriðja tekju­hæsta 829 millj­ónir króna. Því fengu þær 30 pró­sent fjöl­skyldna sem voru með hæstu tekj­urnar alls rúm­lega 6,3 millj­arða króna, eða 83 pró­sent end­ur­greiðslna sem runnu til fjöl­skyldna. 

Ekk­ert mat fram­kvæmt á áhrifum á inn­heimtu tekju­skatts

Í fyr­ir­spurn Kristrúnar var einnig kallað eftir upp­lýs­ingum um hvort fram hafi farið mat á áhrifum „Allir vinna“ á inn­heimtu tekju­skatts. 

Í svari ráðu­neyt­is­ins segir að ekk­ert mat hafi fram fram á þeim áhrifum með kerf­is­bundnum hætti. „Hlið­stætt verk­efni, þó með þrengra gild­is­sviði, gilti á árunum 2009–2014 og er lík­legt að bæði þá og nú hafi verk­efnið haft þau áhrif að auka tekjur rík­is­ins af tekju­skatti. Það leiðir af því að fyr­ir­komu­lagið felur í sér fjár­hags­legan hvata sem ætti að auka líkur á því að vinna við slík verk sé talin fram til skatts, auk þess að upp­lýs­ingar um ein­stök verk­efni og verk­sala sem fylgja umsóknum um end­ur­greiðslu virð­is­auka­skatts geta almennt komið skatt­yf­ir­völdum að gagni við skatt­eft­ir­lit. Tekju­á­bat­inn er þó óreglu­legur og getur komið fram á löngum tíma eftir að sótt er um end­ur­greiðslu. Nokkuð langan tíma myndi því taka að meta áhrifin með sam­ræmdri aðferða­fræði á grund­velli upp­lýs­inga um ein­stök mál.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar