VIRK- starfsendurhæfingarsjóður mun ekki taka við einstaklingum sem standa utan vinnumarkaðar, eru örorkulífeyrisþegar eða skjólstæðingar félagsmálastofnana á árinu 2015 að óbreyttu. Stjórnarformaður sjóðsins tilkynnti Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, þetta bréfleiðis á fimmtudag í kjölfar þess að fjárlög, sem gera ráð fyrir að framlag ríkisins til VIRK á árinu 2015 verði 200 milljónir króna, voru samþykkt. Samkvæmt lögum og samningum sem hafa verið undirritaðir átti framlag ríkisins til VIRK að vera 1,1 milljarður króna á árinu 2015.
VIRK mun því ekki taka við þeim 200 milljónum króna sem sjóðnum er skammtað á fjárlögum. Í bréfinu segir ennfremur að nú liggi „fyrir að ríkið mun ekki að standa við samkomulagið og því er VIRK nauðbeygt til að tilkynna starfsendurhæfingarstöðvunum um breyttar forsendur þjónustukaupa á næsta ári“. Því muni VIRK „ekki geta tekið einstaklinga í þjónustu á árinu 2015 sem ekki er greitt iðgjald af í sjóðinn".
Ríkið hefur ekki greitt sinn hluta
Virk er starfsendurhæfingarsjóður sem stofnaður var af Alþýðusambandi Íslands (ASÍ) og Samtökum atvinnulífsins (SA) í maí 2008. Í janúar 2009 var svo undirrituð ný stofnskrá og þá komu stéttarfélög og atvinnurekendur á opinberum vinnumarkaði að sjóðnum. Tilurð sjóðsins byggir á samkomulagi milli þeirra sem að honum standa um nýtt fyrirkomulag starfsendurhæfingar í kjarasamningum á vinnumarkaði sem gert var árið 2008.
Það framlag átti meðal annars að fjármagna starfsendurhæfingu þeirra einstaklinga sem eru atvinnulausir, þiggja örorkulífeyri eða eru skjólstæðingar félagsmálastofnana.
Síðan þá hafa atvinnurekendur og lífeyrissjóðir greitt hlutfall af stofni iðgjalds til sjóðsins til að standa undir rekstri hans og starfsendurhæfingu þeirra sem eru virkir á atvinnumarkaði. Ríkið átti síðan, samkvæmt lögum sem samþykkt voru árið 2012 og samningum sem voru gerðir þegar VIRK var sett á fót, að greiða framlag til sjóðsins. Það framlag átti meðal annars að fjármagna starfsendurhæfingu þeirra einstaklinga sem eru atvinnulausir, þiggja örorkulífeyri eða eru skjólstæðingar félagsmálastofnana. Í ljósi þess hefur VIRK sinnt þeim skjólstæðingum sem ríkið átti að greiða kostnað af. Ríkið hefur hins vegar ekki borgað sinn hluta.
Hafna framlagi ríkisins
Í fyrra, árið 2013, var gert óformlegt samkomulag um að fresta framlagi ríkisins um eitt ár gegn því að það kæmi inn árið 2015. Framlagið átti að nema 1,3 milljörðum króna. Þegar fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar var kynnt í haust var hins vegar ekki gert ráð fyrir neinu framlagi. Þegar fjárlögin voru loks samþykkt í þessari viku hafði framlagið hækkað úr 0 í 200 milljónir króna.
Í bréfi stjórnarformanns VIRK til ráðherra segir: „Engar viðræður hafa átt sér stað við forsvarsmenn VIRK vegna þessarar fjárhæðar. Fullkomlega óljóst er hvaða breytingu þessi fjárhæð á að hafa á réttindi hugsanlegra skjólstæðinga VIRK eða skyldur VIRK gagnvart þeim. Þá verður ekki séð að umræddar 200 milljónir breyti neinu er varðar viðhorf stjórnvalda til samstarfs við aðila vinnumarkaðarins og lífeyrissjóði um uppbyggingu á atvinnutengdri starfsendurhæfingu. Stjórn VIRK sér því engan möguleika á því að taka við þessari greiðslu“.