Margt mælir með því að innleiða samkeppni þar sem henni verður komið við á Íslandi. Því fylgir aðhald, nýjar framleiðsluleiðir eru reyndar og nýjar vörur boðnar fram á mörkuðum sem hafa staðnað. Vísbendingar eru um að öflug samkeppni skipti meira máli en hver á fyrirtækin en ef samkeppnin á að blómstra þá verða aðstæður fyrirtækja að vera jafnar. Þannig hafði afnám einkaleyfis fyrirtækja í eigu hins opinbera ekki skýr áhrif á verð á póstþjónustu, rafmagni til almennings eða símaþjónustu.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu um mat áhrifum samkeppnisrekstrar hins opinvera á virka samkeppni og heilbrigði atvinnulífs hérlendis, sem unnin var af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Tvö ár eru síðan að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið samdi við Hagfræðistofnun um að vinna skýrsluna, en tilefnið var fyrirspurn tíu þingmanna Sjálfstæðisflokksins á Alþingi um málið.
Skýrslan var unnin af Sigurði Jóhannessyni, forstöðumanni stofnunarinnar, og tveimur hagfræðingum. Hún var auk þess rýnd af tveimur óháðum sérfræðingum.
Þrátt fyrir að hafa verið tilbúin í október 2020 og skilað til ráðuneytisins var hún ekki birt á þeim tíma. Samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins um málið, sem birtist um síðustu helgi, var það vegna þess að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið vildi það ekki. Hagfræðistofnun tók einhliða ákvörðun um birtingu hennar fyrir skemmstu og er skýrslan nú aðgengileg á heimasíðu stofnunarinnar. Hún hefur hins vegar ekki verið birt á vef atvinnuvegaráðuneytisins.
Neysluverð 54 prósent yfir meðaltali ESB
Í upphafi skýrslunnar er spurt af hverju ríki og sveitarfélög reki fyrirtæki. Þátttaka í atvinnulífinu sé áhættusöm og skattborgarar hafi ekki allir jafnmikinn áhuga á að taka slíka áhættu.
Í skýrslunni er rakið að neysluverð á Íslandi sé með því hæsta í Evrópu og að árið 2019 hafi það verið 54 prósent yfir meðaltali Evrópusambandsins (ESB). Matur og drykkur er til að mynda 40 prósent dýrari hér en að meðaltali innan sambandsins og föt og skór eru sömuleiðis 35-40 prósent dýrari.
Það er þó ekki allt dýrara hér. Rafmagnsverð til heimila er til að mynda 35 prósent undir meðaltali Evrópusambandsins og í skýrslunni er farið yfir að fyrir því geti verið ýmsar ástæður. „ Ein er ódýrt opinbert fjármagn, sem nýtt hefur verið til þess að byggja upp flest fyrirtæki á markaði með rafmagn og önnur er hagstæðar aðstæður af hendi náttúrunnar. Þriðja ástæðan gæti verið að íslensk orkufyrirtæki – sem flest eru í eigu hins opinbera – séu svona vel rekin.“
Þá er rakið að fjarskipti séu álíka dýr hér og í Evrópusambandinu en hið opinbera hefur dregið sig með öllu úr úr öllum símarekstri. Í ljósleiðaraþjónustu keppir hins vegar eitt einkarekið fyrirtæki, Míla í eigu Símans, við Gagnaveituna (í eigu Orkuveitu Reykjavíkur sem er að uppistöðu í eigu Reykjavíkurborgar).
Tækifæri til að taka frekari skref
Skýrsluhöfundar segja að ýmislegt hafi verið gert á undanförnum árum til að jafna leikinn í samkeppni fyrirtækja ríkis og sveitarfélaga og einkafyrirtækja en að stíga megi frekari skref.
Á meðal leiða sem þeir nefna er að æskilegt þyki að starfssvið opinberra fyrirtækja sé almennt betur afmarkað og þeim sett skýrari afkomumarkmið. Fengur yrði að eigandastefnu fyrir orkufyrirtæki landsins og skilja mætti á milli eignarhalds á orkuframleiðslu og einkasölu á rafmagni. Þar er helst nefnt að kljúfa rafmagnsframleiðslu utan Þjórsár og Fljótsdalsstöðvar frá Landsvirkjun og skipta henni milli nokkurra fyrirtækja. „Þannig yrði þess freistað að efla samkeppni á almennum rafmagnsmarkaði. Sem stendur er Landsvirkjun eina fyrirtækið sem getur boðið rafmagn í heildsölu hér á landi sem nokkru nemur. Það hamlar gegn því að skapast geti virkur heildsölumarkaður. Ekki yrði hróflað við sölu Landsvirkjunar til stórkaupenda.“
Þá telja skýrsluhöfundar að bjóða ætti alþjónustu í póstflutningum út í stað þess að binda hana við Íslandspóst og að skoða mætti betur hvort rétt sé að draga Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði.