Ungur maður hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald í Kaupmannahöfn eftir að hafa verið handtekinn af lögreglu í gær. Hann er sakaður um að hafa látið Omari El-Hussein sjálfvirk skotvopn í té en sá réðst á Krudttønden á Austurbrú 14. febrúar síðastliðinn, myrti tvo og særði þrjá. Ungi maðurinn hefur hugsanlega verið ákærður fyrir að vera vitorðsmaður árásarmannsins. DR greinir frá þessu.
Maðurinn sem var handtekinn er sagður hafa útvegað El-Hussein árásarriffil af gerðinni Barrett M95. El-Hussein réðst svo til atlögu á fund um málfrelsi sem sænski teiknarinn Lars Vilks sótti. Vilks hefur teiknað og birt skopmyndir af Múhameð spámanni og er það talið hafa verið tilefni árásarinnar.
Árásarmaðurinn komst undan og var felldur af lögreglu nokkru síðar á lestarstöð í Norðurbrú í Kaupmannahöfn.
Lögreglan hefur ekki gefið upp nafn mannsins sem nú hefur verið settur í gæsluvarðhald en fréttastofa DR hefur eftir heimildum sínum að þeir grunuðu í málinu hafi átt tengsl við klíkuna „Brothas“ sem haldið hefur til í Mjølnerparken í Kaupmannahöfn.