Vodafone tapaði viðskiptavinum í farsímaþjónustu og í nettengingum á fyrri hluta þessa árs, Nova og Síminn bæta bæði við sig viðskiptavinum í farsímaþjónustu og sendum SMS-um fækkar á milli ára. Þetta kemur fram í nýrri tölfræðiskýrslu Póst- og fjarskiptastofnunnar (PFS) um íslenska fjarskiptamarkaðinn sem var birt í dag.
Viðskiptavinum Vodafone í farsímaþjónustu fækkaði um tæplega þúsund á milli ára auk þess sem félagið náði ekki í neinn þeirra níu þúsund viðskiptavina sem bættust við markaðin á milli ára.Vodafnoe missti einnig um 1.800 viðskiptavini sem voru áður með netþjónustu hjá félaginu og náði ekki í neinn þeirra tvö þúsund nýrra viðskiptavina sem fengu sér netþjónustu á tímabilinu.
Líklegt verður að teljast að innbrot inn á heimasíðu Vodafone, sem átti sér stað að morgni 30. nóvember 2013, hafi haft töluverð áhrif á flótta viðskiptavina frá félaginu, sem er eina íslenska fjarskiptafyrirtækið sem er skráð á markað. Þjófnum tókst að komast yfir um 79 þúsund smáskilaboð sem send höfðu verið af heimasíðu Vodafone á síðustu þremur árum, mikinn fjölda lykilorða viðskiptavina Vodafone að notendasíðum þeirra hjá fyrirtækinu, fjögur kreditkortanúmer og gríðarlegt magn upplýsinga um möfn og kennitölur viðskiptavina. Gögnin birti hann síðan opinberlega. Stuldurinn, og birting gagnanna, er stórtækasta innrás í einkalíf Íslendinga sem nokkru sinni hefur átt sér stað.
Tveir af hverjum þremur viðskiptavinum Nova í frelsi
Staða Nova á íslenska farsímamarkaðnum heldur áfram að styrkjast ár frá ári. Fyrirtækið var með um 134 þúsund viðskiptavini í lok júní síðastliðins og tæplega þriðjungsmarkaðshlutdeild. Viðskiptavinum Nova hefur fjölgað um 27 þúsund á tveimur árum. Athygli vekur hins vegar að rúmlega 89 þúsund viðskiptavina Nova eru með fyrirframgreidd símkort. Það eru fleiri en slíkir viðskiptavinir allra hinna símafyrirtækjanna samanlagt. Alls eru tveir af hverjum þremur viðskiptavinum Nova með fyrirframgreidd símkort. Til samanburðar er tæplega fjórði hver viðskiptavinur Símans með slíkt kort. Restin er í fastri þjónustu sem skilar stöðugri og meiri tekjum.
Síminn bætir við sig viðskiptavinum á milli ára og er enn stærsta fjarskiptafyrirtæki landsins með 37,1 prósent markaðshlutdeild á farsímamarkaði. Vodafone tapar tæplega þúsund viðskiptavinum á milli ára. Tal, sem bíður nú leyfis samkeppnisyfirvalda fyrir því að fá að renna inn í 365 miðla, er í frjálsu falli þegar kemur að farsímaþjónustu. Um mitt ár í fyrra voru viðskiptavinir félagsins 20.838. Ári síðar hafði þeim fækkað um 5.500 og markaðshlutdeild Tals mældist einungis 3,5 prósent.
SMS skilaboðum fækkar í fyrsta sinn.
Í skýrslunni kemur fram að SMS-smáskilaboðum fækki á milli ára. Það er í fyrsta sinn sem það gerist síðan að smáskilaboðasendingar í gegnum farsíma urðu hluti af samskiptamáta Íslendinga. Alls voru tæplega 104 milljónir SMS-a send á fyrri hluta þessa árs, sem er um fimm milljónum færri en á sama tíma í fyrra. Viðskiptavinir Nova eru langduglegastir við að senda slík skilaboð. Þeir sendu samtals 68 milljón SMS á fyrri hluta þessa árs, eða 65,5 prósent allra sendra smáskilaboða.
Þessi hnignun SMS-ins á fyrst og síðast rætur sinar að rekja til uppgangs samskiptaforrita á vegum Facebook, Apple og fleiri slíkra aðila. Slík forrit eru í sífelldri sókn samhliða aukinni notkun farsíma.